Joe Biden Bandaríkjaforseti lýsti því yfir í gær ða hann muni stöðva vopnasendingar á sprengjum og skotvopnum til Ísrael fyrirskipi Benjamín Netanjahú forsætisráðherra árás inn í Rafah. Borgin er sú eina á Gasa sem Ísraelsher hefur ekki ráðist að fullu inn í.
Hamassamtökin lýstu því yfir í morgun að vígamenn þeirra hafi tekist á við ísraelska hermenn í útjaðri borgarinnar í morgun.
Hamas-liðar hafi skotið flaugum og sprengjuvörpum á Ísraelsmenn. Fulltrúar Hamas sitja enn vopnahlésviðræður í Kaíró, þrátt fyrir yfirlýsingar ísraelskra yfirvalda um að varanlegt vopnahlé komi ekki til greina. Fram kemur í frétt Reuters að William Burns, yfirmaður bandarísku leyniþjónustunnar CIA, hafi snúið aftur til Kaíró í morgun til að taka þátt í viðræðunum eftir að hafa farið til Jerúsalem að ræða við stjórnvöld þar. Burns reyni nú allt til að tryggja vopnahlé.

600 þúsund börn í borginni
Haft er eftir íbúum austasta hverfis Rafah, Brasilíuhverfis, í frétt Reuters að herþyrla hafi skotið á íbúa á færi. Drónar hafi þá svifið yfir íbúðahúsum á nokkrum svæðum, sums staðar mjög nærri húsþökum. Ísraelsk stjórnvöld segja vígamenn Hamas halda til í borginni og því þurfi að ráðast inn í hana, til að uppræta samtökin.
Hundruð þúsunda Palestínumanna hafa leitað skjóls í borginni undanfarna mánuði, þar á meðal 600 þúsund börn. Þegar hafa áttatíu þúsund flúið borgina, hvert er óljóst. Ísraelsmenn náðu landamærastöðinni í Rafah á sitt vald á þriðjudag, einu flóttaleið Palestínumanna til Egyptalands. Þannig hafa Ísraelsmenn stöðvað allan flutning neyðarbirgða til Gasa.
Heilbrigðiskerfið hrunið
Læknar á Gasa hafa sagt aðgerðir Ísraelsmanna í Rafah kornið sem fyllti mælinn - heilbrigðiskerfi strandarinnar er hrunið. Þegar hefur þurft að loka sjúkrahúsum og heilbrigðisstofnunum í borginni vegna árásar Ísarelsmanna. Al-Najjar sjúkrahúsinu, aðalspítala Rafah, var lokað í skyndi þegar átök milli stríðandi fylkinga nálgaðist spítalann í morgun og Emirati fæðingarspítalinn hætti að taka á móti nýjum sjúklingum. Þar fæðast að jafnaði 85 börn á dag.
Rafah's Abu Youssef al-Najjar Hospital, situated in a combat zone designated by the Israeli army, was evacuated due to Hamas fighting Israeli troops on the outskirts of the city https://t.co/PvKTN4F7mo pic.twitter.com/J70V66Cgab
— Reuters (@Reuters) May 8, 2024
Sjúkir og slasaðir hrannast því upp á al-Aqsa sjúkrahúsinu í Deir al-Balah. Haft er eftir jórdanska skurðlækninum Ali Abu Khurma, sem er í sjálfboðavinnu á spítalanum, á Reuters að sjúkragögn hafi hingað til borist á spítalann en séu hættar að berast. Grisjur séu uppurnar og læknasloppar sömuleiðis.
„Engin rúm eru laus fyrir sjúklinga. Sjúklingar liggja á víð og dreif: Á göngunum, biðstofum. Rúmum hefur verið komið fyrir alls staðar. Sumum rúmum deila tveir sjúklingar. Í móttökunni liggja sjúklingar á gólfinu. Heilbrigðiskerfið er hrunið.“
Munu ekki yfirgefa Rafah
Tedros Adhanom Ghebreyesus forstjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar WHO sagðist á blaðamannafundi í morgun hafa miklar áhyggjur af stöðu mála. Hann staðfesti að Al-Najjar sjúkrahúsinu hafi verið lokað og sjúklingar fluttir annað. Þá keppist starfsmenn við að bjarga þeim fáu sjúkrabirgðum sem til eru á sjúkrahúsinu.
„Rafah-landamærastöðin, sem er mikilvæg birgðaflutningaleið, milli Egyptalands og Gasa er lokuð. Það eldsneyti sem við væntum að fengi að fara til Gasa í dag hefur ekki fengið að fara. Það þýðir að við eigum aðeins eldsneytisbirgðir til að halda áfram starfsemi sjúkrahúsa í suðurhluta Gasa í þrjá daga í viðbót. WHo hefur náð að safna upp einhverjum birgðum í vöruhúsum og sjúkrahúsum en stöðvist birgðaflutingar til Gasa getum við ekki haldið úti starfsemi sjúkrahúsanna,“ sagði Ghebreyesus á fundinum í morgun.
„WHO mun ekki yfirgefa Rafah og mun halda áfram störfum samhliða samstarfsaðilum. WHO hefur yfirumsjón með störfum tuttugu neyðarteyma á Gasa. Þau samanstanda af 179 heilbrigðisstarfsmönnum frá 30 ríkjum. Þetta fólk starfar samhliða 800 palestínskum heilbrigðisstarfsmönnum. Þessi teymi starfa á tíu sjúkrahúsum og hafa komið upp fimm bráðabirgðaspítölum. Þau hafa hitt fjögur hundruð þúsund sjúklinga og framkvæmt meira en átján þúsund skurðaðgerðir.“