Njarðvíkurkonur unnu 3-0 sigur á Grindavík í sínu undanúrslitaeinvígi og bíða nú eftir að komast að því hverjir verða mótherjarnir í lokaúrslitunum.
Leikurinn hefst klukkan 19.15 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Upphitunin hefst klukkan 18.45 og Subway Körfuboltakvöld gerir síðan upp leikinn strax á eftir.
Það er ekki aðeins reynslan sem er með Keflavíkurkonum í kvöld því sagan er vissulega líka með kvennaliði Keflavíkur við aðstæður sem þessar.
Keflavíkurkonur hafa nefnilega aldrei tapað oddaleik á heimavelli í sögu úrslitakeppni kvenna í körfubolta.
Þetta verður áttundi oddaleikur liðsins á Sunnubrautinni og allir hinir sjö hafa unnist.
Þar á meðal er síðasti oddaleikur Keflavíkurkvenna á heimavelli sem var líka á móti Stjörnunni en reyndar allt öðru Stjörnuliði. Sá leikur var í undanúrslitum úrslitakeppninnar vorið 2019.
Keflavík vann þann leik frekar örugglega, 85-69. Stjörnuliðið var lagt niður en svo endurvakið aftur nokkrum árum síðar.
Liðið er nú byggt upp á mjög ungum leikmönnum sem hafa staðist frábærlega það risapróf í vetur að stimpla sig inn sem eitt besta lið landsins. Liðið er nýliði en komst í efri hlutan og er nú einum sigurleik frá úrslitaeinvíginu.
Sex af þessum sjö oddaleikjum í Keflavík hafa verið í undanúrslitum eins og þessi í kvöld en sá sjöundi var úrslitaleikur um Íslandsmeistaratitilinn vorið 1994.
Til samanburðar þá hafa karlarnir í Keflavík spilað tuttugu oddaleiki á heimavelli, unnið fimmtán þeirra og tapað fimm.
- Oddaleikir Keflavíkurkvenna á heimavelli í sögu úrslitakeppninnar:
- Undanúrslit 1993: 59-56 sigur á Grindavík
- Lokaúrslit 1994: 68-58 sigur á KR
- Undanúrslit 2004: 66-62 sigur á Grindavík
- Undanúrslit 2005: 79-73 sigur á ÍS
- Undanúrslit 2013: 78-70 sigur á Val
- Undanúrslit 2017: 80-64 sigur á Skallagrími
- Undanúrslit 2019: 85-69 sigur á Stjörnunni
- Undanúrslit 2024: Klukkan 19.15 í kvöld