Nú er rétt um hálfur mánuður þar til þjóðin kýs sjöunda forseta lýðveldisins. Frá 8. apríl hafa verið birtar að minnsta kosti fimmtán kannanir um fylgi frambjóðenda þar sem fylgið hefur verið á mikilli hreyfingu. Í kvöld birtum við nýja könnun Maskínu sem sýnir töluverðar breytingar á fylginu.
Að loknum kvöldfréttum koma þau Arnar Þór Jónsson, Baldur Þórhallsson, Halla Hrund Logadóttir, Halla Tómasdóttir, Jón Gnarr og Katrín Jakobsdóttir til fyrri kappræðna Stöðvar 2 fyrir komandi kosningar. Þar verður leitað viðbragða við könnuninni en frambjóðendur einnig spurðir spjörunum úr.
Við heyrum einnig skoðanir almennings á forsetaembættinu og spyrjum nokkurra spurninga sem fólk hefur sent okkur.
Fylgið hefur haldið áfram að sveiflast í maímánuði og þá ekki bara í efstu sætunum. Því í könnunum bæði Prósents og Gallups í síðustu viku tvöfölduðu Halla Tómasdóttir og Arnar Þór Jónsson fylgi sitt frá síðustu könnunum þar á undan. Halla Tómasdóttir mældist með um 12 prósent í síðustu könnunum Prósents og Gallup og Arnar Þór um 6 prósent.
Aðrir frambjóðendur hafa ekki hlotið náð fyrir kjósendum í könnunum. Mælast oftast undir tveimur prósentum og jafnvel einu prósenti. Fréttastofa Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar ákvað því að bjóða sex efstu frambjóðendum til kappræðna í kvöld klukkan 18:55. Þátturinn verður í beinni útsendingu og opinni dagksrá á Stöð 2 og Vísi.
Þetta eru fyrri kappræður af tveimur. Frambjóðendur munu aftur mæta í beina útsendingu þegar tveir dagar verða til kosninga hinn 30. maí.