Þetta sagði Baldur Þórhallsson, forsetaframbjóðandi og prófessor í stjórnmálafræði, í kappræðum forsetaframbjóðenda á Stöð 2 í gær, þegar rætt var um frumkvæði forseta.
„Ég hef til dæmis talað mikið fyrir fyrirhyggju í öryggis- og varnarmálum, hef lagt mikla áherslu á það og var byrjaður á því löngu fyrir allsherjarinnrás Rússlands í Úkraínu. Til dæmis að tala um mikilvægi þess að við huguðum að fæðuöryggi, orkuöryggi, birgðarstöðu í landinu, að gæta að sæköplunum, að gæta netöryggis. Fyrir þetta var ég kallaður stríðsæsingarmaður í aðdraganda innrásar Rússlands í Úkraínu,“ sagði Baldur.
Hann benti á að hann hefði lagt stund á svokölluð smáríkjafræði í yfir 30 ár, meðal annars hvernig lítil ríki á borð við Ísland og hin Norðurlöndin gætu komið í veg fyrir krísur og hvernig þau ættu að haga undirbúningi fyrir krísur.
Þetta ætti að vera eitthvað sem forseti gæti talað um.
„Þess hugmynd okkar: „Þetta reddast“, það er mjög gott mottó okkar Íslendinga; þá brettum við upp ermarnar og látum til okkar taka og skilum verulegum árangri á stuttum tíma en ég held að það sé mjög gott til dæmis að hafa fyrirhyggjuna með í farteskinu.“
„Það er hlustað þegar við tölum“
„Að sjálfsögðu erum við að kjósa forseta sem hefur sjálfstæða rödd, það finnst mér ekki nokkur vafi,“ svaraði Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, spurð að því hvort forseti ætti að geta haft frumkvæða að því að bjóða til sín fólki án þess að bera það undir ríkisstjórnina.
„Hann að sjálfsögðu verður að hafa svigrúm til þess að móta embættið og leggja sínar áherslur. Að því sögðu segi ég: Að sjálfsögðu á forseti líka að vera í góðu og þéttu sambandi við utanríkisráðuneytið. Þannig virkar þetta best.“
Katrín sagði hlutverk forseta á alþjóðavettvangi meðal annars að vera öflugur fulltrúi fyrir íslenskt samfélag, atvinnulíf og íþrótta- og menningarstarf og að tala fyrir íslenskum gildum hvað varðar mannréttindi, lýðræði og frið.
Þá sagðist hún vita það af eigin reynslu að „við erum kannski ekki mörg hér á Íslandi og landið er ekki stórt en það er hlustað þegar við tölum“.
„Þá verður forseti líka að vera reiðubúinn að geta stigið inn í umræðu á alþjóðavettvangi til þess að gæta hagsmuna Íslands og til þess að sýna þjóðinni hollustu. Og ég segi, ég tel að fyrrverandi forseti hafi gert það til að mynda þegar hann steig inn í umræðu á alþjóða vettvangi og þá er ég að vísa í Ólaf Ragnar Grímsson. Það er bara þannig að það er auðvitað það sem ræður för en auðvitað á það líka að vera lykilregla að forseti vinnur samkvæmt utanríkisstefnunni og í góðu samráði við stjórnvöld,“ sagði Katrín.
Kappræðurnar í heild má sjá að neðan.