Freyr tók við Kortrijk í janúar á þessu ári, en þá sat liðið í neðsta sæti belgísku deildarinnar. Hann er þriðji þjálfari liðsins á tímabilinu og belgískir fjölmiðlar lýstu þjálfarastöðunni sem „kirkjugarði þjálfaranna.“
Frey hefur hins vegar tekist að snúa genginu við og liðið tryggði sér sæti í umspili um að halda sæti sínu í efstu deild í síðustu umferð deildarkeppninnar í Belgíu. Það umspil hófst í kvöld þegar Kortrijk vann 1-0 sigur gegn Lommel í fyrri viðureign liðanna.
Alsíringurinn Abdelhak Kadri skoraði eina mark leiksins þegar hann kom Kortrijk yfir með marki úr vítaspyrnu á 14. mínútu og Kortrijk fer því með forystuna inn í seinni leikinn sem fram fer á heimavelli þeirra að viku liðinni.