Körfuknattleiksdeild Tindastóls tilkynnti í dag að hún hafi samið við Lettann Davis Geks um að leika áfram með liðinu á næsta tímabili.
Þetta verður þriðja tímabil Geks á Sauðárkróki. Hann kom fyrst til liðsins í febrúar 2023 og varð Íslandsmeistari með liðinu um vorið. Hann spilaði síðan allt síðasta tímabil með Stólunum.
Geks var með 12,1 stig að meðaltali á 27,7 mínútum í leik í vetur en hann hitti úr 48 prósent þriggja stiga skotum og skoraði yfir þrjá þrista að meðaltali í leik.
„Davis Geks er frábær skotmaður og góður varnarmaður ásamt því að vera frábær náungi. Það er mikil gleði tíðindi að Davis og fjölskylda hafi framlengt veru sína í Skagafirði,“ segir í frétt um samninginn á miðlum Tindastóls.
Tindastólsmenn staðfestu líka um leið að lykilmennirnir Pétur Rúnar Birgisson, Ragnar Ágústsson, Sigtryggur Arnar Björnsson og Adomas Drungilas séu allir með samning út næsta tímabil.