Enski boltinn

Fergu­son hafi átt leyni­legan fund í Lundúnum

Aron Guðmundsson skrifar
Sir Alex Ferguson, fyrrverandi knattspyrnustjóri Manchester United með núverandi knattspyrnustjóra félagsins, Erik ten Hag.
Sir Alex Ferguson, fyrrverandi knattspyrnustjóri Manchester United með núverandi knattspyrnustjóra félagsins, Erik ten Hag. Vísir/Getty

Sir Alex Ferguson, fyrrverandi knattspyrnustjóri og goðsögn í sögu enska úrvalsdeildarfélagsins Manchester United, er sagður hafa fundað með Dougie Freedman, yfirmanni knattspyrnumála hjá Crystal Palace, varðandi þrjá leikmenn félagsins sem Manchester United er sagt á höttunum eftir.

Það er Football Insider sem greinir frá og í frétt miðilsins segir að Ferguson, sem gegnir eins konar sendiherra starfi fyrir Manchester United, hafi fundað með Freedman í London og að þar hafi hann kannað hug félagsins á að láta frá sér leikmennina Marc Guehi, Eberechi Eze og Michael Olise í sumar. Allir hafa þeir heillað með Palace í ensku úrvalsdeildinni.

Búist er við miklum breytingum á leikmannahópi Manchester United milli tímabila en það gæti reynst erfitt fyrir félagið að næla í einhvern af ofantöldum leikmönnum. 

Sjálfur er miðvörðurinn Guehi með samning við Palace út tímabilið 2026. Þeir Eze og Olise, sem komu alls að þrjátíu og þremur mörkum á yfirstandandi tímabili með Palace í ensku úrvalsdeildinni, eru hins vegar á samningi út tímabilið 2027.

Á sama tíma og miklar vangaveltur eru um stöðu leikmannahóps Manchester Untied á þessari stundu. Hverjir komi og hverjir muni fara. Eru einnig miklar vangaveltur uppi um framtíð knattspyrnustjóra félagsins, Hollendingsins Erik ten Hag. 

Er þeirri spurningu velt upp hvort hann sé rétti knattspyrnustjórinn til að leiða lið félagsins áfram. Gengi United í ensku úrvalsdeildinni var undir væntingum. Þar endaði liðið í 8.sæti. Þá féll Manchester United úr leik í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu en náði þó að standa uppi sem enskur bikarmeistari. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×