Erlent

Narendra Modi lýsir yfir sigri á Ind­landi

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Narendra Modi lýsti yfir sigri þrátt fyrir að hafa tapað meirihluta sínum.
Narendra Modi lýsti yfir sigri þrátt fyrir að hafa tapað meirihluta sínum. AP/Manish Swarup

Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, hefur lýst yfir sigri í þingkosningum þar í landi þrátt fyrir mikið fylgistap milli kosninga. Flokkur hans, Bharatiya Janata, hefur unnið hreinan meirihluta á Lok Sabha, neðri deild indverska þingsins, síðustu tvær kosningar.

Modi birti yfirlýsingu á síðu sinni á samfélagsmiðlinum X fyrr í dag þar sem hann segir sigurinn sögulegt afrek.

Í neðri deild þingsins á Indlandi, stærsta lýðveldi heims, sitja 543 fulltrúar og því þarf 272 til að ná meirihluta. Enn á eftir að ljúka talningu í einu kjördæmi en það lítur út fyrir að Bharatiya Janata tapi meira en sextíu sætum. Er þetta í fyrsta sinn frá því að Modi tók við taumunum sem flokkurinn nær ekki hreinum meirihluta.

Bharatiya Janata með sína 240 fulltrúa á sér þó samstarfsflokka og leiðir eins konar bandalag sem gengur undir nafninu National Democratic Alliance (NDA) sem saman tryggir Modi sitt þriðja kjörtímabil í embætti forsætisráðherra.

Í ræðu sem Modi flutti í höfuðstöðvum BJP í Delí sagðist Modi vera ákaflega glaður með niðurstöðurnar.

„Ég vil hneigja mig fyrir þjóðinni. Í dag er tilfinningaþrunginn dagur fyrir persónulega. Þetta er fyrsta kosningin frá því að ég missti móður mína,“ sagði hann að sögn Guardian.

„Blessun þjóðarinnar í þriðja sinn eftir tíu ár bætir starfsandann okkar, blæs í okkur móðinn. Andstæðingum okkar, þrátt fyrir að vera sameinaðir, tókst ekki einu sinni að vinna jafnmörg sæti og BJP,“ segir Modi.

Talsmenn BJP segja ekkert koma til greina en að flokkurinn myndi nýja ríkisstjórn.

„NDA mun mynda ríkisstjórn í þriðja sinn. Modi forsætisráðherra verður svarinn inn í þriðja sinn,“ hefur Guardian eftir Jaiveer Shergill talsmanni flokksins. Hann hafi bætt við að fylgistap flokksins verði skoðað.

Þingkosningar hafa staðið yfir á Indlandi síðan á föstudag en þær eru umfangsmestu lýðræðislegu kosningar heimsins þar sem tæpur milljarður manna er á kjörskrá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×