Í bréfi Willum kemur fram að netsala áfengis grafi undan gildandi sölufyrirkomulagi á áfengi og að grundvallarmarkmiðum stefnu stjórnvalda í lýðheilsumálum sé ógnað. Sigurður Ingi brást við bréfinu með því að senda erindi til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þar sem hann benti á álitaefni sem tengjast starfsemi netverslana með áfengi og að þau kunni að fela í sér brot á lögum.
Í tilkynningu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu þann 11. júní kom fram að ráðuneytið væri að bregðast við bréfi heilbrigðisráðherra og að ráðuneytið hafi látið vinna lögfræðiálit um lagaumhverfi smásölu áfengis á Íslandi, þar sem gerð er grein fyrir gildandi lagaumhverfi smásölu áfengis á Íslandi og þeim valkostum sem til greina koma varðandi breytingar á því. Með tilkynningu sinni birti Sigurður Ingi bréf Willum, lögfræðiálitið og erindi ráðuneytisins til lögreglunnar.
Töluvert hefur verið fjallað um málið í vikunni en dómsmálaráðherra sagði í gær að þingmenn eigi ekki að hafa afskipti af því hvað eða hvernig lögreglan rannsakar möguleg brot. Það sé hlutverk lögreglu og ríkissaksóknara að rannsaka slík mál.
Willum Þór birtir svo í dag tilkynningu á vef stjórnarráðsins þar sem hann fer yfir málið frá sinni hlið en hann sendi sitt bréf til fjármála- og efnahagsráðherra þann 5. júní. Í tilkynningu sinni bendir hann á að sérstök umræða hafi farið fram á þingi um forvarnir og lýðheilsu nýlega og til markmiða áfengislaga um verslun með áfengi og tóbak. Þá vísar hann einnig í stjórnarsáttmála og að þar komi fram að það séu sameiginlegir hagsmunir þjóðarinnar, fjárhagslegir og félagslegir, að aukin áhersla sé lögð á lýðheilsu og forvarnir.
Aukið aðgengi vinni gegn framtíðarsýn
Þá vísar hann einnig í ályktun Alþingis um lýðheilsustefnu sem miði að því að viðhalda og bæta heilbrigði fólks og koma í veg fyrir sjúkdóma og að stóraukið aðgengi að áfengi með opnun netverslana vinni beinlínis gegn þeirri framtíðarsýn Alþingis. Þá hafi rannsóknir sýnt að aukið aðgengi að áfengi hafi slæm áhrif á heilsufar fólks og hafi neikvæðar félagslegar afleiðingar í för með sér. Rekja megi eitt af hverjum tíu dauðsföllum í Evrópu til áfengisneyslu, neysla þess hafi orsakatengsl við yfir 200 sjúkdóma og heilsukvilla og sé auk þess stór áhættuþáttur slysa.