Skoðun

Þegar hríðinni slotar

Ásta F. Flosadóttir skrifar

Júníbyrjun hefur verið bændum og búaliði erfið. Fordæmalaust vetrarveður í júní, norðan krapahríð og snjór á Norðurlandi, kuldabeljandi og rok í öðrum landshlutum. Veðurspáin var snemma orðin slæm, lægð komandi langt norðan úr höfum, trillaði sér niður kortið, dýpkaði og settist að við Melrakkasléttu. Að vetri til hefði þetta boðað norðan stórhríð upp á gamla mátann. Það versta við þessa veðurspá var að hún rættist.

Ekki þarf að tíunda áhrif þessa á bændur, sem eiga allt sitt undir dutlungum veðurfarsins. Það veldur miklu álagi að hafa takmarkaða stjórn á starfsaðstæðum sínum. Við getum ekki stjórnað veðrinu, við getum bara stjórnað eigin viðbrögðum við því. Og menn eru kannski ekki í sínu besta formi til að bregðast við, rétt staðnir upp úr þeirri miklu vinnutörn sem sauðburður er. Það var harður biti að kyngja að trúa veðurspánni. Óhjákvæmilega varð tjón. Sumir urðu fyrir meira tjóni en aðrir, en heildarumfangið hjá sauðfjárbændum kemur ekki í ljós fyrr en fé kemur af fjalli í haust. Tjón á ræktarlandi og æðarvörpum verður hægt að meta fyrr. En peningar eru ekki allt.

Bændasamtökin hafa staðið fyrir verkefninu „Bændageð” til að vekja bændur til meðvitundar um andlega heilsu. Í kjölfar áfalla í búrekstrinum en enn mikilvægara að huga að andlegri vellíðan. Þar eru grundvallarþættir að sofa vel, nærast vel og styrkja ástvinatengsl. Faðmlag, símtal, umhyggja. Þessir litlu hlutir eru nefnilega stórir og dýrmætir, skipta sköpum. Þetta er stuðningur sem allir eru færir um að veita. Er einhver í þínu nágrenni sem þarf á stuðningi að halda?

Höfundur er sauðfjárbóndi og stjórnarmaður í deild sauðfjárbænda hjá Bændasamtökunum.




Skoðun

Sjá meira


×