Skoðun

Loks eignast Ís­land mannréttindastofnun

Guðmundur Ingi Guðbrandsson skrifar

Nú hillir undir samþykkt Alþingis á frumvarpi okkar Vinstri grænna um að setja á fót Mannréttindastofnun Íslands. Um er að ræða nýja stofnun sem heyrir undir Alþingi sem verður sjálfstæð og óháð stofnun með sambærilegum hætti og umboðsmaður Alþingis og ríkisendurskoðandi. Ísland er eitt örfárra ríkja í Evrópu sem ekki hefur sjálfstæða mannréttindastofnun. Nú breytist það sem er mikið fagnaðarefni.

Forsenda lögfestingar Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks

Mannréttindastofnun mun vinna að því að efla mannréttindi á öllum sviðum samfélagsins og veita bæði hinu opinbera og einkaaðilum aðhald. Þá á hún að hvetja til og stuðla að rannsóknum á sviði mannréttinda og afla upplýsinga um stöðu mannréttinda sem munu gagnast við stefnumótun og lagasetningu. Þá mun Mannréttindastofnun gegna fræðsluhlutverki og efla vitundarvakningu um mannréttindi. Mannréttindastofnun mun hafa eftirlit með framkvæmd laga og mannréttindasamninga sem íslenska ríkið er aðili að. Stofnunin er ein forsenda þess að Ísland standi við skuldbindingar sínar gagnvart samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Mannréttindastofnun verður falið eftirlit með framkvæmd samningsins en í samningnum er beinlínis gert ráð fyrir að starfandi sé sjálfstæð innlend mannréttindastofnun. Í Landsáætlun í málefnum fatlaðs fólks, sem ég fékk samþykkta á Alþingi í mars, er einnig kveðið á um lögfestingu samningsins sem er næsta stóra skrefið í að auka mannréttindi fatlaðs fólks á Íslandi. Mannréttindastofnun mun einnig hafa eftirlit með framkvæmd samnings Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum (CEDAW).

Bæði Mannréttindastofnun og lögfesting samnings Samning sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks eru verkefni í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Hvoru tveggja eru stór mál í réttindabaráttu fatlaðs fólks sem ég hef beitt mér fyrir á undanförnum árum. Ég er stoltur að við séum nú að stíga þetta mikilvæga skref í átt að lögfestingu samningsins með því að samþykkja að koma á fót Mannréttindastofnun Íslands. Það er sannarlega tími til kominn.

Stórt hlutverk

Mannréttindastofnun er ætlað stórt og viðamikið hlutverk í samfélaginu og mun aðstoða og leiðbeina öllum sem til hennar leita. Það mun gagnast öllum en þó líklega mest jaðarsettum hópum sem eru sérstaklega útsettir fyrir mannréttindabrotum. Stofnunin mun því stuðla að auknu jafnrétti og réttlæti á Íslandi.

Höfundur er formaður Vinstri grænna og félags- og vinnumarkaðsráðherra.




Skoðun

Sjá meira


×