Blikarkonur höfðu unnið alla fyrstu átta leikina sína og aðeins fengið á sig samtals tvö mörk í þeim. Þær voru einar á toppnum og búnar að vinna innbyrðis leikinn gegn Val.
Víkingsliðið hefur ekki verið allt of sannfærandi að undanförnu en í þessum 2-1 sigri á Blikum minnti liðið á liðið sem varð bikarmeistari í fyrra eftir einmitt sigur á Blikastelpunum í bikarúrslitaleik.
Fann hjartað og karakterinn í sínu liði
„John (Andrews, þjálfari Víkings), var eðlilega ánægður en hann fann hjartað og karakterinn í sínu liði. Mér fannst ég finna aftur Víkingsliðið frá því í bikarúrslitunum í fyrra. Ég hef aðeins saknað þeirra,“ sagði Helena Ólafsdóttir, umsjónarkona Bestu markanna.
„Pressan virðist hafa komið Blikum á óvart og annar leikur sem maður hugsaði til var meistarar meistaranna á móti Val. Það sýnir bara hvað býr í þessu liði,“ sagði Þóra Björg Helgadóttir, sérfræðingur Bestu markanna.

„Þetta er svolítið þetta Víkingslið sem við þekkjum,“ sagði Helena og sendi boltann á Mist.
„Já við elskuðum að fylgjast með þeim í Lengjudeildinni í fyrra. Auðvitað er þetta alltaf að vera gríðarlega krefjandi verkefni að koma upp í Bestu deildina og vera að spila þessa toppleiki í hverri einustu umferð,“ sagði Mist Rúnarsdóttir, sérfræðingur Bestu markanna.
Einhver sjarmi yfir þessu Víkingsliði
„Þær hafa eðlilega ekki náð að vera hundrað prósent í öllum leikjum en þetta er það sem þær geta og þær eru stórkostlegar þegar þær eru í gangi,“ sagði Mist.
„Það er bara einhver sjarmi yfir þessu Víkingsliði. Maður tengir nú vel við það að það kvikni aðeins í á móti liði eins og Breiðablik. Ef þær ná að kveikja í þessu á móti hinum liðunum þá er komið hættulegt ástand fyrir þessi stóru lið,“ sagði Þóra.
Hér fyrir neðan má sjá umræðuna um Víkingsliðið.