Breska ríkisútvarpið, BBC, birti frétt þess efnis að nokkur lið deildarinnar hefðu svo gott sem skipt á ungum og uppöldum leikmönnum. Skiptin fóru hins vegar þannig fram að liðin borguðu uppsprengt verð en um er að ræða leikmenn sem hafa lítið sem ekkert áorkað á knattspyrnuvellinum.
Clubs warned not to breach Premier League ‘good faith’ rules over ‘PSR loophole’ dealshttps://t.co/HDypknTMlF
— Martyn Ziegler (@martynziegler) June 24, 2024
Ástæðan er sú að uppaldir leikmenn skila meira í kassann þegar kemur að PSR-reglum deildarinnar en þær skera úr um hvað lið deildarinnar mega vera mikið í mínus yfir þriggja ára tímabil. Var reglunum ætlað að hjálpa þeim liðum sem ekki ættu ótæmanlegar hirslur en það virðist ekki vera raunin.
- Þar sem uppaldir leikmenn flokkast sem „hreinn gróði“ þá telja þeir allt að þrisvar sinnum meira í bókhaldi félaganna. Ef uppalinn leikmaður er seldur fyrir 5 milljónir má félagið kaupa fyrir 15 milljónir án þess að brjóta téðar fjármálareglur.
Þetta virðast lið deildarinnar nú vera að nýta sér í gríð og erg. Everton er eitt þeirra félaga sem nefnt er í greininni en félagið keypti hinn tvítuga Tim Iroegbunam á níu milljónir punda, rúmlega einn og hálfan milljarð íslenskra króna, frá Aston Villa. Hinn 21 árs gamli Lewis Dobbin fór í hina áttina fyrir sömu upphæð. Þá var Villa nálægt því að selja táninginn Omari Kellyman til Chelsea á 19 milljónir punda, rúma 3,3 milljarða íslenskra króna.
Aston Villa is pleased to announce the signing of Lewis Dobbin from Everton. 🤝
— Aston Villa (@AVFCOfficial) June 23, 2024
Skömmu eftir að Villa hafði selt Iroegbunam var tilkynnt að félagið væri að festa kaup á Ian Maatsen, vinstri bakverði Chelsea sem spilaði með Borussia Dortmund á síðustu leiktíð. Kaupverðið 37,5 milljónir punda, rúmlega 6,6 milljarða íslenskra króna.
Á svipuðum tíma var Everton sagt vera að íhuga að kaupa táninginn Yankuba Minteh frá Newcastle United en síðarnefnda liðið var á sama tíma sagt vilja kaupa framherjann Dominic Calvert-Lewin.
Í frétt BBC kemur fram að eitt lið deildarinnar hafi miklar áhyggjur af þessu og hafi lagt inn kvörtun. Á sama tíma hefur The Times greint frá að deildin muni ekki leyfa liðum að komast upp með þetta.