Í tilkynningu um málið sem Kristján birtir á Facebook-síðu sinni segir hann að málið lúti að einhliða ákvörðunum starfamanna RÚV um að breyta íslenskri tungu með því, fyrst og fremst, að auka notkun hvorugkyns.
„…og draga úr notkun karlkyns í nafni kynhlutleysi í málfari, sem byggir á misskilningi um kynhlutleysi hins málfræðilega karlkyns. Þessi leið starfsmannanna gengur gegn lagaákvæðum um að leggja rækt við íslenskuna og viðhafa lýtalaust málfar,“ segir Kristján í tilkynningu sinni.Þar segir hann jafnframt að hann óski eftir því að ráðherra taki kæruna til umfjöllunar. Hann segir RÚV hafa skýrar skyldur gagnvart íslenskri tungu og að stofnunin hafi ekki sinnt þeim.
„Þessi afvegaleiðsla á sér rætur í því sem kallast pólitísk rétthugsun og virðist hafa þá ætlun að sýna því fólki stuðning sem helst kýs að um það sé talað í hvorugkyni. Þessi einhliða ákvörðun gerir það að verkum að stjórnmálaskoðanir starfsmanna endurspeglast í notkun þeirra á íslenskunni. Þeir fara með þessu málfari ekki að lögum um Ríkisútvarpið sem kveður á um að stofnunin skuli standa vörð um íslenskuna og málfar stofnunar skuli miða að því. Öðruvísi en með góðu fordæmi getur stofnunin ekki lagt rækt við íslenska tungu,“ segir Kristján að lokum.
Skiptar skoðanir
Kynhlutlaust mál hefur verið mikið í fjölmiðlum undanfarið. Eiríkur Rögnvaldsson íslenskufræðingur hefur fjallað mikið um það og breytta notkun íslenskrar tungu. Fjölmargir hafa þó mótmælt þessari breyttu notkun á tungumálinu og segja hana óþarfa.