Á flugvellinum rigndi 148.5 millílítrum af vatni á þremur klukkutímum sem er meira en meðaltalið fyrir allan júnímánuð samkvæmt veðurstofu Indlands. Atvikið átti sér stað seint í gær eða snemma morguns að staðartíma. Brottfararhliðinu var í kjölfarið lokað og brottfararsalurinn rýmdur. Ráðherra flugmála, Kinjarapu Rammohan Naidu, hefur óskað skýringa um málið.
Í frétt Reuters segir að tíu flugum hafi verið aflýst og 40 seinkað. Átta voru fluttir slasaðir á spítala en björgunaraðgerðum er lokið. Í innlendum fjölmiðlum má sjá myndefni af leigubíl sem kramdist undir þakinu þegar það hrundi.
Veðrið hafði ekki bara áhrif á flugvellinum en víða í Delí voru flóð og fólk fast í bílum. Þá hafði rigningin líka áhrif á almenningssamgöngur og rafmagn. Í einu stærsta fylki Indlands, Uttar Pradesh, létust tuttugu í flóðum síðustu 48 klukkutímana. Sjö þeirra létust vegna eldinga.