Páll Magnússon forseti bæjarstjórnar segir þá sem fara með hagsmuni bæjarbúa ekki geta fallist á það að bæjarbúar greiði fyrir tjón Vinnslustöðvarinnar með hærra útsvari eða vatnsgjöldum.
Bæjarstjórn telji að ljóst liggi fyrir að óhappið hafi orðið vegna stórfellds gáleysis.
„Tjónið er að minnsta kosti 1500 milljónir en þeir vísa til ákvæða siglingalaga sem heimila að takmarka tjónabæturnar við 360 milljónir. Sú heimild gildir ekki ef óhappið stafar af stórfelldu gáleysi sem við teljum liggja ljóst fyrir að liggi þarna að baki,“ segir Páll í samtali við fréttastofu.
Vestmannaeyjabær og HS Veitur hafa falið lögmanni sínum að höfða mál á hendur Vinnslustöðinni. Vinnslustöðin, VÍS og Huginn hafa viðurkennt bótaskyldu en hafna kröfu bæjarins með vísan til ofangreindrar heimildar í siglingalögum.
„Svo er það bara grundvallarreglan í skaðabótamálum og grundvallarreglan í samskiptum milli manna og aðila í þjófélaginu að þú bætir það tjón sem þú veldur,“ segir Páll.
„Þess vegna stefnum við Vinnslustöðinni, Huginn ehf. sem er útgerðaraðili skipsins sem er hundrað prósent í eigu Vinnslustöðvarinnar og tryggingafélaginu VÍS til greiðslu á tjóninu sem nemur að minnsta kosti 1500 milljónum.“