Enska liðið er vissulega komið í átta liða úrslit keppninnar en leikur liðsins hefur ekki hrifið marga. Liðið var á leiðinni úr keppni þegar Jude Bellingham jafnaði metin í uppbótatíma á móti Slóvakíu í sextán liða úrslitunum. Harry Kane skoraði síðan sigurmarkið í framlengingunni og enska liðið slapp með skrekkinn.
Southgate hefur fengið á sig mikla gagnrýni vegna lélegrar frammistöðu liðsins, bæði vegna leikstíls og hvaða leikmenn fá að spila og hverjir ekki. Hundleiðinlegur og ragur leikstíll er vissulega gagnrýnisverður.
„Leikmennirnir verða líka að taka á sig eitthvað af sökinni,“ sagði Phil Foden á blaðamannafundi fyrir leikinn við Sviss í átta liða úrslitunum.
„Leiðtogar liðsins verða að koma saman og reyna að finna lausnina á því af hverju þetta er ekki að ganga hjá okkur,“ sagði Foden.
„Það er bara ákveðið mikið sem þjálfarinn getur gert. Hann setur upp leikkerfið og segir þér hvernig á að pressa. Ef það gengur ekki upp þá verður þú að finna lausnina inn á vellinum,“ sagði Foden.
Flestir telja að Southgate sé að skipa liðinu að vera svona aftarlega en það er ekki svo.
„Á æfingum hefur hann verið að segja okkur að pressa og vera framar á vellinum en mér finnst þetta stundum vera bara undir leikmönnum sjálfum komið,“ sagði Foden.
„Við verðum að sýna að við séum leiðtogar. Við hefðum þurft að ná betur saman inn á vellinum og finna lausnir,“ sagði Foden.
Phil Foden says it's time for the England players to step up.#Euro2024 #BBCEuros pic.twitter.com/AxQd74vtBN
— BBC Sport (@BBCSport) July 3, 2024