Spánverjar voru mun sterkari og unnu sjö marka sigur, 37-30, eftir að hafa verið tveimur mörkum yfir í hálfleik, 18-16.
Portúgalar voru búnir að tryggja sér sæti í undanúrslitunum en ljóst var að sigurvegari leiksins í dag myndi fylgja þeim í leiki um verðlaun. Tapið þýðir að íslenska liðið spilar um fimmta til áttunda sætið á mótinu.
Portúgal og Spánn spila í undanúrslitum keppninnar en Ísland og Austurríki geta ekki endað ofar en í fimmta sæti.
Framarinn Reynir Þór Stefánsson var langatkvæðamestur í íslenska liðinu með ellefu mörk úr fjórtán skotum en Haukamaðurinn Össur Haraldsson skoraði sex mörk. Annar Haukamaður, Birkir Snær Steinsson, skoraði fimm mörk.
Spánverjar voru fimm mörkum yfir, 12-7, um miðjan fyrri hálfleik en íslensku strákunum tókst að jafna metin í 13-13 með frábærum kafla.
Spænska liðið var tveimur mörkum yfir í hálfleik, 18-16, en það munaði bara einu marki á liðunum, 22-21, eftir átta mínútna leik í seinni hálfleik.
Þá kom slæmur kafli hjá íslenska liðinu sem Spánverjar unnu 6-2 og slitu sig frá íslensku strákunum.
Spænska liðið komst mest sjö mörkum yfir og vann að lokum með sjö mörkum eftir að hafa skorað þrjú síðustu mörk leiksins.