Breiðablik er komið áfram í aðra umferð undankeppni Sambandsdeildarinnar eftir góðan 3-1 sigur á Tikvesh frá Norður-Makedóníu á Kópavogsvelli í kvöld. Liðið þurfti að hafa fyrir hlutunum þar sem það tapaði ytra 3-2 í síðustu viku.
Til að bæta gráu ofan á svart þá lenti Breiðablik undir í upphafi leiks. Sofandaháttur og einbeitingarleysi í vörninni var valdur að markinu, sama vandamál og hrjáði liðið í fyrri leiknum. Vitao fékk drjúgan tíma til að teikna sendingu í galopið svæði milli miðvarðanna, þar stakk Ediz Spahiu sér og kláraði færið.

Heimamenn Breiðabliks voru þó við völd á vellinum og stýrðu spilinu en áttu erfitt með að skapa sér færi gegn þéttri vörn gestanna sem hægðu á leiknum og töfðu tímann alveg frá því þeir komust yfir.


Loks undir lok fyrri hálfleiks fann Breiðablik jöfnunarmarkið. Liðið hafði þá legið í sókn í dágóðan tíma þegar Alexander Helgi gaf boltann fyrir, sendingin rataði ekki á samherja en varnarmenn Tikvesh hreinsuðu stutt. Drifu ekki út úr teignum og Kristinn Steindórsson kom á ferðinni og þrumaði boltanum í fjærhornið með vinstri fæti.
Staðan jöfn í leiknum 1-1 þegar fyrri hálfleikur var flautaður af en einvígið enn í höndum Tikvesh (4-3).
Blikar voru fljótir að breyta því, byrjuðu seinni hálfleik af krafti og tóku 2-1 forystu. Ísak Snær og Aron Bjarnason áttu gott samspil, lögðu boltann til hliðar á Höskuld sem skaut af löngu færi, fleytti boltanum meðfram jörðinni og hann söng í netinu við nærhornið.
Breiðablik hélt yfirburðum sínum áfram og gerði breytingar til að hrista aðeins upp í hlutunum þegar illa gekk að skapa færi.
Þær skiptingar skiluðu sér á 85. mínútu þegar varamaðurinn Patrik Johannesen gaf á annan varamann, Kristófer Kristinsson, sem var í kapphlaupi við varnarmann. Það var erfitt að dæma um hvor þeirra varð á undan í boltann en af einhverjum fór hann framhjá markmanninum og í netið.


Sætur endurkomusigur hjá Breiðablik sem mætir Drita frá Kósóvó í næstu umferð.
Atvik leiksins
Breiðablik vildi fá vítaspyrnu, og átti líklega að fá vítaspyrnu, þegar Alexander Helgi var felldur í teignum á 62. mínútu. Varnarmaður sem keyrði í bakið á honum en ekkert dæmt og ekkert VAR til að styðjast við.
Annað risastórt atvik átti sér stað undir blálokin. Tikvesh fékk aukaspyrna á stórhættulegum stað og hleyptu frábæru skoti af en Anton Ari varði virkilega vel og hélt leiknum frá því að fara í framlengingu.

Stjörnur og skúrkar
Miðvörðurinn Viktor Örn Margeirsson var veikur hlekkur í liði Breiðabliks. Allt of langt frá manninum í markinu og óöruggur í löppunum þegar hann fékk boltann.
Oft séð Viktor Karl spila betur en hann gerði í kvöld. Lykilsendingarnar voru ekki að virka og fann ekki flæðið í sóknarleiknum, skilaði varnarvinnu samt og það verður ekki tekið af honum.
Kristinn Steindórsson átti frábæra endurkomu. Ógnaði fram á við með flottum fyrirgjöfum og elti alltaf til baka.
Svo verður að henda hrósi á varamennina. Komu inn af krafti og kveiktu í leiknum. Kristófer Kristinsson reyndist hetjan af bekknum.


Stemning og umgjörð
Allt í tipp topp standi á Kópavogsvelli, að venju vissulega. Grillið hélst heitt þrátt fyrir úrhellisrigningu, borgararnir vel kryddaðir og nóg af sósu sett á. Allt eins og það á að vera í umgjörðinni en mætingin og stemningin hefði mátt vera meiri. Skilar sér vonandi þegar lengra er komið í keppnina.
Dómarinn
Slök frammistaða hjá finnlenska tríóinu í kvöld. Leyfðu gestunum að komast upp með svakalegan seinagang í öllum sínum aðgerðum og bættu svo bara einni mínútu við fyrri hálfleik.
Viðtöl
Fleiri myndir





