Erlent

Musk segir fregnirnar af milljónunum 45 ó­sannar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Musk tekur fyrir það að hyggjast gefa tugi milljóna dala í kosningasjóði Trump.
Musk tekur fyrir það að hyggjast gefa tugi milljóna dala í kosningasjóði Trump. Getty/Marc Piasecki

Elon Musk, einn ríkasti maður heims, hefur neitað fregnum þess efnis að hann hyggist gefa 45 milljónir dala mánaðarlega til forsetaframboðs Donald Trump.

Musk settist niður með hinum umdeilda Jordan Peterson á dögunum og sagði umræddan orðróm einfaldlega ósannan. Það væri hins vegar rétt að hann hefði stofnað söfnunarsjóð (e. Super Pac), sem hann hefði lagt lægri fjárhæðir í. 

Sjóðurinn, America Pac, yrði notaður til að styðja við verðuga kandídata og til stuðnings einstaklingsfrelsinu. „Repúblikanar eru að mestu, en ekki fullkomlega, með verðleikum og frelsi,“ sagði Musk.

„Ætlunin er að halda á lofti þeim prinsippum sem gerðu Bandaríkin frábær til að byrja með,“ sagði auðjöfurinn. „Ég myndi til dæmis ekki segja að ég væri „MAGA“. Mér þykja Bandaríkin frábær. Ég er meira „MAG“; gerum Bandaríkin enn betri.“

New York Times greindi frá því í gær að stjórnendur America Pac væru Generra Peck og Phil Cox, sem störfuðu áður fyrir forsetaframboð Ron DeSantis, ríkisstjóra Flórída.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×