Sigurgeir lagði af stað frá Akranesi klukkan tíu í gærmorgun, en þurfti að hætta vegna vinda og öldugangs, eftir að hafa verið í sjónum í um sex klukkustundir.
„Veðurspáin rættist ekki, vindar snérust, fóru beint framan í okkur og urðu mjög sterkir. Þannig það var bara tekin ákvörðun um að þetta væri alltof hættulegt, það þurfti bara að stoppa þetta áður en illa færi,“ segir Sigurgeir.
„Já það var mjög mikill öldugangur. Konan mín er alltaf á kayak og gefur mér að borða úr honum. Hún þurfti að yfirgefa hann og fara upp í bát út af öldugangi. Öldurnar voru farnar að brotna ofan í sætishólfin hjá þeim,“ segir Sigurgeir. Þegar öldugangurinn hófst hafi hann verið ansi hressilegur.
Átti nóg eftir og svekkjandi að þurfa hætta vegna veðurs
Sigurgeir segir að það hafi verið mjög svekkjandi að þurfa hætta vegna veðurs, hann hafi átt nóg eftir í tankinum.

„Ég var náttúrulega orðinn smá þreyttur sko. Ég var farinn að finna svolítið fyrir öxlunum af því að ég þurfti að beita svo svakalegu afli til að komast eitthvað áfram. En ég átti samt helling eftir, veðrið leyfði okkur bara ekki að halda áfram.“
Fjórða langsundið
Þetta er í fjórða sinn sem Sigurgeir syndir langsund í sjónum, en hann hefur áður synt frá Vestmannaeyjum til Landeyja, Grettissundið og þvert yfir Kollafjörðinn frá Kjalarnesi yfir í Bryggjuhverfið í Reykjavík.
Í öll skiptin hefur hann safnað áheitum fyrir góðgerðarmálefni, en í þetta skiptið er það fyrir börn á Gasa. Ennþá er hægt að heita á Sigurgeir á barnaheill.is.

Hann lætur deigan ekki síga og kveðst ætla reyna aftur við leiðina.
„Jájájá ég hætti ekki fyrr en ég er búinn að fara yfir. Hvort sem það verður frá Reykjavík eða Skaganum, þá ætla ég að klára þetta,“ segir Sigurgeir.