Sport

Mikil við­brögð eftir at­vikið hræði­lega á heims­leikunum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Leitað var að Lazar Dukic á Marine Creek vatninu í Texas í dag.
Leitað var að Lazar Dukic á Marine Creek vatninu í Texas í dag. Vísir/AP

Forsvarsmenn heimsleikanna í CrossFit fá mikla gagnrýni á samfélagsmiðlum eftir dauðsfall keppanda á leikunum í dag. Annie Mist Þórisdóttir hefur sent fjölskyldu hins látna samúðarkveðjur.

Forráðamenn heimsleikanna í CrossFit staðfestu í dag að keppandi hefði látist í fyrstu grein dagsins en leikarnir hófust í morgun í Texas í Bandaríkjunum. Dauðsfallið átti sér stað í sundhluta greinar þar sem keppendur áttu bæði að synda og hlaupa.

Leit hófst að Serbanum Lazar Dukic þegar hann skilaði sér ekki yfir endalínuna en forráðamenn heimsleikanna nafngreindu ekki þann sem lést í yfirlýsingu sinni. 

Í kjölfar yfirlýsingarinnar hafa forsvarsmenn heimsleikana fengið mikla gagnrýni á samfélagsmiðlum. Á samfélagsmiðlinum X má finna myndband þar sem sýnt er frá sundkeppninni. Þar sjást keppendur koma að landi og skammt frá bakkanum má sjá þar sem Dukic á í miklum erfiðleikum á sundinu. Starfsmenn sjást á brettum og í landi örskammt frá en virðast ekki taka eftir því sem er í gangi.

Myndbandið má sjá hér fyrir neðan og við vörum lesendur við því sem þar má sjá.

Fjölmargir kalla eftir því að forráðamenn heimsleikanna séu látnir svara fyrir atvikið í dag. Gagnrýni í garð þeirra snýst meðal annars að skorti á starfsmönnum og á viðbrögðum þeirra sem til staðar eru. Keppni á heimsleikunum var frestað út daginn eftir að Dukic fannst og óvíst er hvenær og hvort hún hefst á ný.

Þekktir íþróttamenn úr CrossFit-heiminum hafa sent samúðarkveðjur á samfélagsmiðlum. Annie Mist Þórisdóttir er ein þeirra en hún hefur í tvígang borið sigur úr býtum á heimsleikunum.

Annie Mist sendir samúðarkveðjur á Instagram.Skjáskot

„Hugur minn er hjá Dukic-fjölskyldunni. Ég get ekki ímyndað mér hvernig þeim líður en þið megið vita að hugur minn og hjarta er hjá ykkur,“ skrifar Annie Mist en meðal annarra íþróttamanna sem hafa sent kveðju er margfaldur sigurvegari heimsleikanna í kvennaflokki Tia-Clair Toomey-Orr og Rich Froning sem fjórum sinnum hefur unnið í karlaflokki. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×