Ummælin lét Trump falla á sundurlausum blaðamannafundi í Mar-a-Lago í Flórída í gær. Að hans mati ætti forseti að minnsta kosti að hafa eitthvað að segja um stýrivaxtaákvarðanir seðlabankans.
„Ég held í mínu tilfelli, þá þénaði ég mikið fé, ég náði miklum árangri og ég held að ég hafi meiri meðfædda hæfileika en í mörgum tilfellum fólk sem ætti sæti í seðlabankanum eða bankastjórinn,“ sagði Trump.
Þó að bankastjóri og stjórn seðlabankans sé tilnefnd af forseta og staðfest af öldungadeild Bandaríkjaþings á bankinn að njóta sjálfstæðis frá sitjandi ríkisstjórn hverju sinni. Starfstímabili Jerome Powell, sitjandi seðlabankastjóra, lýkur á miðju næsta kjörtímabili.
Þegar Trump var forseti vó hann ítrekað að Powell fyrir ákvarðanir seðlabankans. Á fundinum í gær sagðist Trump hafa tekist hart á við Powell á þeim tíma.
„Ég barðist mjög hart gegn honum.“
Reuters-fréttastofan segir að Trump hafi viljað reka Powell en efasemdir um að hann hefði vald til þess hefðu komið í veg fyrir það.
Bandamenn Trump hafa lagt drög að tillögum til þess að takmarka sjálfstæðis seðlabankans en fyrrverandi forsetinn hefur reynt að fjarlægja sig hópnum.