Coda Terminal, dótturfyrirtæki Carbfix, hyggst koma upp tíu borteigum steinsnar frá Völlunum í Hafnarfirði til að dæla koldíoxíð ofan í setbergið. Mikil ólga hefur verið meðal íbúa í Hafnarfirði vegna áformanna. Helstu áhyggjur íbúanna eru áhrif starfseminnar á grunnvatnið á svæðinu.
Verkefnið gengur út á það að leysa koldíoxíð í vatni og dæla í berggrunninn á 350 til þúsund metra dýpi. Koldíoxíð er þannig bundið í vatnsstraumnum neðanjarðar. Fulltrúar Coda Terminal og Carbfix taka fyrir það að starfsemi fyrirtækisins komi til með að hafa áhrif á neysluvatnsból höfuðborgarsvæðisins.
Í tilkynningu frá forsvarsfólki undirskriftasöfnunarinnar segir að verkefnið eigi sér engar hliðstæður á Íslandi né í heiminum öllum og að mikið sé um óvissuþætti í tengslum við verkefnið vegna áhrifa þess á umhverfi og íbúa bæjarins.
„Íbúar hvetja bæjarstjórn Hafnarfjarðar til að virða íbúalýðræðið og setja verkefnið í heild sinni í íbúakosningu,“ segir í tilkynningunni.