Hátíðin hófst klukkan 11 í dag og stóð til 14. Fjallað Löng bílaröð myndaðist á þjóðveginum um hádegisbil í dag vegna hátíðarinnar. Bílaröðin náði niður alla Kambana og langleiðina til Reykjavíkur. Í tilkynningu Kjörís segir að hátíðin hafi þrátt fyrir það gengið vel fyrir sig og allir hafi getað fundið sér bílastæði í bænum.
„Óhætt er að segja að þetta hafi verið alger metþátttaka í ár enda viðburðurinn orðinn vel kynntur og fastur liður hjá mörgum fjölskyldum,“ segir í tilkynningunni.

Valdimar Hafsteinsson framkvæmdastjóri Kjörís setti hátíðina en kynnir var Villi Naglbítur. Boðið var upp á fjölbreytt skemmtiatriði á stóra Kjörís sviðinu en meðal þeirra sem komu fram eru GDRN, hljómsveitin Slysh og fleiri. Þá var einnig á svæðinu þrautabraut Hjalta Úrsusar.

Kjörís bauð gestum upp á fjölbreytt úrval af ís. Allt frá Mjúkís ársins 2024 til ýmissa furðutegunda sem voru sérframleidd fyrir þennan dag. Í tilkynningu segir að furðuísarnir hafi vakið mikla athygli en þeir voru Harðfiskís, laxaís, beikonís með karamellusósu og til að toppa daginn var gott að enda á Habanero chilly ís.

Stöllurnar úr Teboðinu þær Sunneva Einars og Birta Líf voru á svæðinu og fylgdu eftir nýjustu afurðinni Bestís sem kom á markað í sumar.
Kjörís notar þennan dag til að kynnast bragðlaukum landans og er óhætt að segja að margt hafi komið á óvart. Mjög margir þurftu ábót af Biscoff ís-Biscoff kex og Nutella og því ekki ótrúlegt að hann muni sjást í verslunum í nánustu framtíð.
