Í frétt GB kemur fram að Bretar hafi verið varaðir við því að ferðast til Íslands vegna yfirstandandi eldgoss á Reykjanesi. Breska utanríkisráðuneytið hafi gefið út yfirlýsingu stílaða á ferðamenn sem hygðu á Íslandsferðir.
Þar er breskum ferðalöngum brýnt að hafa varann á og forðast að dvelja nærri eldgosinu. Í fréttinni kemur samt fram að engin hætta sé á ferð í Reykjavík eða öðrum landshlutum eldgossins vegna. Ólafi Ragnari þykir þó tilraun miðilsins til að smellibeita lesendur helst til smellibeituleg og hnýtir í hann.
Come on @GBNEWS ! #Iceland is completely safe! Safer than the streets of #London! We know how to deal with volcanic eruptions. https://t.co/GYkVFFra5I
— Ólafur Ragnar Grímsson (@ORGrimsson) August 24, 2024
„Ísland er fullkomlega öruggt! Öruggara en götur Lundúna. Við kunnum að takast á við eldgos,“ skrifar Ólafur í færslunni.
GB News hefur áður gert eldsumbrot á Reykjanesi að umfjöllunarefni sínu. Íslandi er greinilega hættusvæði ef miðað er við umfjöllun miðilsins. 27. júlí síðastliðinn mátti lesa í fyrirsögn á miðlinum að ekki væri hægt að tryggja öryggi á neins konar ferðum til Íslands.