Starfsfólk Hopp var staðsett nálægt Sjávarútvegshúsinu í Skúlagötu vegna Menningarnætur og var vitni að árásinni. Þetta segir Sæunn Ósk Unnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Hopp Reykjavík.
„Starfsfólkið okkar brást hárrétt við, höfðu samband við neyðarlínu, hlúðu að brotaþolum og voru viðbraðgsaðilar snögg á vettvang.“
Hún segir í skriflegu svari að það sé forgangsmál stjórnenda fyrirtækisins í dag að hlúa að sínu starfsfólki. Hugur þeirra sé fyrst og fremst hjá brotaþolum og aðstandendum þeirra.
Handtekinn á heimili sínu
Gestir Menningarnætur urðu margir varir við mikinn viðbúnað lögreglu og slökkviliðs í miðborg Reykjavíkur á tólfta tímanum í gær.
Grímur Grímsson, yfirmaður miðlægrar rannsóknardeildar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu sagði í samtali við fréttastofu í morgun að útkall um alvarlega líkamsárás, þar sem hnífi var beitt, hafa borist um hálf tólf. Hinn grunaði hafi verið handtekinn á heimili sínu nokkrum klukkustundum eftir árásina.
Að sögn lögreglu er einn brotaþola alvarlega slasaður og gekkst undir aðgerð á Landspítala í nótt. Það sé mat lækna að viðkomandi sé í lífshættu.
Fréttin hefur verið uppfærð.