„Þegar UN Women á Íslandi nálgaðist mig vegna FO-húfunnar 2024, þá langaði mig strax að fara með þau á aðeins aðrar slóðir en húfurnar hafa verið hingað til, sem eru dökkir tónar. Við ákváðum að styðjast við bláa lit Sameinuðu þjóðanna og treysta á að Íslendingar séu til í að klæðast öðrum litum en svörtum,“ segir Helga Lilja.
Húfan er framleidd af VARMA og kemur í tveimur sniðum, sem hin fullkomna „kollhúfa“ og sem hefðbundin húfa með einföldu uppábroti. Húfan kostar 5.900 kr.
Fjöldi þjóðþekktra einstaklinga tekur þátt í FO-herferð UN Women á Íslandi í ár eins og GDR, Una Torfadóttir, Jón Jónsson, Margrét Rán Magnúsdóttir (RÁN), Emilíana Torrini, Alexander Jarl, Doctor Victor, IntroBeatz og fleiri.

Auk þess er þar að finna systkinin Asil- og Suleiman Al Masri frá Palestínu og Noorinu Khalikyar frá Afganistan, en þau hafa öll fengið alþjóðlega vernd hér á landi.
Ljósmyndarinn Anna Maggý tók allt myndefni fyrir herferðina, ásamt ljósmyndaranum Rebekku Joe en saman mynda þær undir merkjum Wyom Studios. Þetta er í fimmta sinn sem Anna Maggý myndar FO-herferð UN Women á Íslandi.
Um er að ræða stærsta árlega söfnunarátak samtakanna. Í gegnum átakið, sem hófst árið 2015, hafa safnast meira en 100 milljónir króna til verkefna UN Women sem hafa það að markmiði að uppræta kynbundið ofbeldi. Í ár mun ágóðinn renna til verkefna UN Women í Súdan.
Gleymda stríðið
Í tilkynningu frá UN Women um herferðina segir að stríðið í Súdan hafi stundum verið kallað gleymda stríðið. Vopnuð átök hafa geisað í ríkinu nánast linnulaust frá árinu 2003. Þann 15. apríl árið 2023 brutust út átök á milli SAF og RSF, sem berjast um völd í landinu, og standa þau átök enn yfir.

Að sögn UN Women hefur reynst erfitt að tryggja alþjóðlegt fjármagn í neyðar- og mannúðaraðstoð í Súdan þar sem ríkið er „erfið söluvara“ vegna þeirra áralöngu vopnuðu átaka sem þar hafa geisað. Staðan í Súdan sé þó sú að Sameinuðu þjóðirnar telji hana til stærstu mannúðarkrísa heims í dag.
Meira en 11 milljónir hafa neyðst til að flýja heimili sín í kjölfar átakanna og vannæring er vaxandi vandamál í öllum héruðum Súdans, um 70% heilbrigðisstofnana eru óstarfhæf og 2/3 íbúa landsins hafa ekki greiðan aðgang að læknisþjónustu. Auk þess eru súdanskar konur gríðarlega berskjaldaðar fyrir kynferðislegu- og öðru kynbundnu ofbeldi og eru í raun ítrekað útsettar fyrir ofbeldi. Samkvæmt UN Women hafa komið upp um 5 milljón tilfella kynferðislegs- og kynbundins ofbeldis í Súdan. Þetta eru þó aðeins þau tilfelli sem vitað er um – rauntölur eru líklega margfalt hærri.
„UN Women í Súdan hafa miklar áhyggjur af stöðu kvenna og stúlkna í kjölfar átakanna og sjá fram á að missa heilu kynslóðir kvenna og stúlkna vegna þeirra miklu líkamlegu, andlegu og efnahagslegu áfalla sem þær hafa upplifað, “ segir Stella Samúelsdóttir, framkvæmdastýra UN Women á Íslandi.
Nánar er hægt að kynna sér starf UN Women í Súdan hér.
Partý á Loft
Til að fagna nýrri FO-húfu verður slegið til gleðskapar á Loft Hostel, Bankastræti 7, föstudaginn 30. ágúst frá 17 til 19. Léttar veitingar verða í boði Mist Iceland, Lava Cheese, Sætra Synda og fleiri. GDRN og Mammaðín stíga á svið og DJ Apex Anima mun þeyta skífum. Hægt verður að nálgast nýju FO-húfuna á staðnum.
Herferðin er styrkt af Öryggismiðstöðinni, sem stendur straum af öllum framleiðslukostnaði FO-húfunnar og gerir UN Women á Íslandi kleift að senda allan ágóða út til verkefna UN Women í Súdan.