„Ég er stoltur, spenntur og stressaður. Ég elska að geta átt samskipti við fólk í gegnum tónlistina mína en hata á sama tíma þessa vél sem kallast samfélagsmiðill. Ég verð meðvitaður um ímynd mína, rödd, útlit og hreim, og fer að meta eigið virði út frá fjölda deilinga og „læk“ fylgjenda,“ skrifar Auðunn á einlægum nótum í færslunni.
Auðunn segir líf sitt hafi einkennst af hæðum og lægðum. Þrátt fyrir erfið ár hefur hann trú á sjálfum sér og tónlist sinni.
„Ég hef glímt við andleg veikindi, átröskun, áfallastreituröskun og „fórnarlambs hugarfar“ sem hefur haldið aftur að mér að fá að vaxa sem einstaklingur. Ég er stoltur af manneskjunni sem ég er. Stoltur af starfi mínu og þakka öllum sem hafa stutt mig. Ég er tilbúinn fyrir næsta kafla og finn í hjarta mínu að tónlistin mun leiða mig áfram.“
Heppinn að hafa fæðst í Bandaríkjunum
Auðunn er búsettur í Los Angeles þar sem hann vinnur við lagasmíðar og hljóðupptökur.
Á miðnætti gaf hann sitt annað lag undir listamannsnafninu Luthersson Reel in. Lagið er samið af Auðunni sjálfum ásamt franska tónlistarmanninum Elias Abid og breska listamanninum Matthew Harris.
„Lagið fjallar um aðskilnað, bæði inn á við og út á við. Þessi tilfinning að fjarlægjast einhverjum aðstæðum til þess að geta unnið úr innri togstreitu,“ segir í tilkynningu frá Auðunni.
„Ég er búinn að vinna hörðum höndum að þessu lagi og fleirum sem eru á ensku. Ég finn að mér finnst orðið miklu þægilegra að semja á ensku þegar er hérna úti. Ég er rosa heppnin að hafa fæðst hérna í Bandaríkjunum og vera með tvöfaldan ríkisborgararétt og get unnið hér að vild.“
Lagið Reel In má hlusta á í spilaranum hér að neðan: