Fótbolti

Ís­lensk sam­vinna tryggði Kristianstad sigur í Íslendingaslag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hlín Eiríksdóttir og Katla Tryggvadóttir hafa skorað saman fjórtán mörk og gefið saman sex stoðsendingar í sænsku deildinni á leiktíðinni.
Hlín Eiríksdóttir og Katla Tryggvadóttir hafa skorað saman fjórtán mörk og gefið saman sex stoðsendingar í sænsku deildinni á leiktíðinni. @kristianstadsdff

Íslenskir leikmenn voru heldur betur á skotskónum í sænsku kvennadeildinni í fótbolta í dag.

Kristianstad vann þá 3-1 sigur á Örebro í Íslendingaslag en alls tóku fimm íslenskir leikmenn þátt í leiknum og öll fjögur mörkin í leiknum voru íslensk.

Kristianstad getur þakkað góðri íslenskri samvinnu fyrir að öll þrjú stigin komu í hús.

Hlín Eiríksdóttir kom liðinu í 1-0 á 14. mínútu eftir stoðsendingu frá Kötlu Tryggvadóttur.

Katla María Þórðardóttir kom inn á sem varamaður hjá Örebro á 56. mínútu og ellefu mínútum síðar hafði hún jafnað metin.

Það tók Kristianstad þó aðeins sex mínútur að komast yfir og aftur var það íslensk samvinna sem bjó til markið.

Katla skoraði þá á 73. mínútu eftir að hafa fengið stoðsendingu frá Hlín. Landsliðskonurnar lögðu því upp mark fyrir hvora aðra í dag.

Hlín var ekki hætt og innsiglaði sigurinn með sínu öðru marki í leiknum en það kom í uppbótatíma.

Hlín er komin með átta deildarmörk og fjórar stoðsendingar en Katla er með sex mörk og tvær stoðsendingar í sænsku deildinni.

Guðný Árnadóttir var í byrjunarliði Kristianstad og Áslaug Dóra Sigurbjörnsdóttir byrjaði hjá Örebro.

Kristianstad er í fjórða sæti deildarinnar en Örebro er í tólfta sæti sem er fallsæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×