Fótbolti

Ók á kókaíni og grunaður um peninga­þvætti áður en Adam  kom í hans stað

Sindri Sverrisson skrifar
Aly Keita hefur verið landsliðsmarkvörður Gíneu í gegnum tíðina og segir það ástæðuna fyrir því magni seðla sem fannst á heimili hans.
Aly Keita hefur verið landsliðsmarkvörður Gíneu í gegnum tíðina og segir það ástæðuna fyrir því magni seðla sem fannst á heimili hans. Getty

Fótboltamarkvörðurinn Aly Keita hefur verið dæmdur til að greiða sekt fyrir akstur undir áhrifum kókaíns en hann er einnig grunaður um peningaþvætti.

Keita var markvörður og fyrirliði Östersund í næstefstu deild Svíþjóðar en hefur verið í leyfi eftir að hann var handtekinn, grunaður um akstur undir áhrifum og peningaþvætti.

Keita spilaði síðast leik í júní en íslenski markvörðurinn Adam Ingi Benediktsson var svo fenginn frá Gautaborg til að vera aðalmarkvörður Östersund, í fjarveru Keita sem er með samning við Östersund sem rennur út í vetur.

Keita er fæddur í Svíþjóð en er landsliðsmarkvörður Gíneu. Hann varði mark Östersund í ævintýrinu undir stjórn Grahams Potter, þegar liðið komst í gegnum riðlakeppni Evrópudeildarinnar en féll svo úr leik gegn Arsenal árið 2018.

Segist hafa fengið peningana vegna landsleikja

Keita viðurkenndi að hafa neytt kókaíns og var dæmdur án réttarhalda, til að greiða fimmtíu daga sekt. Nákvæm upphæð sektarinnar veltur því sem sagt á launum Keita.

Markvörðurinn heldur hins vegar fram sakleysi sínu varðandi ásakanir um peningaþvætti, en mikið magn reiðufjár fannst við húsleit hjá honum.

„Varðandi grun um peningaþvætti þá hefur Aly Keita sagt lögreglunni frá því að hann fékk peningagreiðslur frá knattspyrnusambandinu í Gíneu vegna verkefna með landsliðinu. Hann neitar sök,“ sagði í yfirlýsingu frá Östersund.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×