Svartfellski hópurinn lendir í Keflavík eftir hádegi og æfir svo á Laugardalsvelli í dag, fyrir leikinn við Ísland sem hefst klukkan 18:45 á morgun.
Í liði Svartfjallalands eru meðal annars þeir Marko Tuci, varnarmaður, og Stefan Mugosa sem skorað hefur 15 mörk fyrir landslið Svartfjallalands og er næstmarkahæstur á eftir fyrirliðanum Stevan Jovetic.
Þeir Tuci og Mugosa leika báðir með suður-kóreskum félagsliðum og þurftu samkvæmt svartfellskum miðlum að ferðast í meira en sólarhring bara til þess að komast heim til Svartfjallalands. Við það bætist svo fimm klukkutíma flug til Íslands í dag.

Leikmennirnir spila svo heima í Svartfjallalandi gegn Wales á mánudaginn áður en þeir þurfa að ferðast aftur til Asíu. Allt þetta ferðalag á tíu dögum.
„Eftir ferðalagið frá Kóreu þá er nú bara ekkert mál að ferðast til Íslands,“ sagði Tuci fyrir flugið til Íslands.
„Þetta er svolítið erfitt ferðalag en ég vona að það komi ekki niður á undirbúningi okkar eða frammistöðu,“ bætti hann við.
„Við erum svo sannarlega tilbúnir að byrja. Við erum búnir að greina íslenska liðið og sáum að þetta er mjög agað lið. Þeir nota langar sendingar en eru líka góðir á seinni boltanum. Við sáum líka gallana þeirra sem ég vona að við getum nýtt okkur,“ sagði Tuci og kvaðst ekki kvíða yfir hitamismuninum við það að spila í besta falli í tíu stiga hita í Reykjavík. Hann þæði frekar meiri kulda en meiri hita.
Leikur Íslands og Svartfjallalands hefst klukkan 18:45 á morgun, í opinni dagskrá á Stöð 2 Sport. Ítarlega er fjallað um leiki Íslands á Vísi.