Halla tjáði sig um andlát Bryndísar Klöru á Facebook-síðu sinni í dag.
„Við erum öll harmi slegin vegna skelfilega sorglegra atburða sem átt hafa sér stað í okkar samfélagi og eru óbærilegir og ólíðandi. Við verðum að ráðast að rótum vandans - saman! Hvert og eitt okkar hefur þar hlutverk. Ég hef átt fjölda funda og samtala undanfarnar vikur um nauðsynlegar úrbætur í kerfinu - og þær eru sem betur fer margar á borðinu!“ skrifar Halla í færslunni.
„En kerfisbreytingar duga ekki til - við þurfum að vinna saman að því að gera kærleikann að eina vopninu í okkar samfélagi. Þetta er ákall og ósk foreldra Bryndísar Klöru og um það hefur verið stofnaður minningarsjóður sem ég er verndari fyrir,“ skrifar hún einnig.
Riddarar kærleikans skuli vera saman og tala saman
Halla biðlar til Íslendinga að leggja það sem þeir geti af mörkum og nefnir þar þrennt:
- Takið utan um ykkur sjálf og börnin ykkar. Kyrrðarstund í Lindakirkju í dag er góður staður til slíks og matarborðið heima er það líka. Verum saman og tölum saman (og ekki bara í gegnum skjái og samfélagsmiðla, þó ég nýti þennan með trega til þess að biðla til ykkar)
- Leitið leiða til að vera sjálf „riddarar kærleikans“ - veljið orðin ykkar vel - talið af mennsku og virðingu við og um aðra. Réttið út hönd þar sem þið vitið að þess er þörf.
- Leggið minningarsjóði Bryndísar Klöru til það sem þið eruð aflögufær um. Sjóðurinn mun styðja við fræðslu, rannsóknir og vitundarvakningu til að koma í veg fyrir að slíkar hörmungar endurtaki sig!!!!
Samfélagið muni draga línu í sandinn
Halla segist telja fátt mikilvægara en að ungt fólk fái sjálft að móta hugmyndir um hvernig Íslendingar geti gert betur. Hún hvetur fólk til að hlusta á unga fólkið, læra af þeim og hvetja þau.
„Ég vonast til að sjóðurinn geti stutt við þau í þeirri viðleitni og trúi því að okkar samfélag muni koma saman á sorgarstundu, draga línu í sandinn og stefna í betri átt. Við getum og verðum að vera breytingin sem við viljum og þurfum að sjá í okkar samfélagi,“ segir hún að lokum.
Kallað hafði verið eftir sterkari viðbrögðum frá Höllu vegna atburða síðustu daga og sagði Björgvin Páll Gústafsson meðal annars á Twitter í vikunni að hann „hefði viljað sjá nýja forsetann okkar miklu sýnilegri í tengslum við þetta þunga mál sem samfálagið er að reyna að ná utan um.“ Forsetinn ætti ekki að vera upp á punt.