Joseph A. Couch, 32 ára, er sagður hafa skotið á bifreiðarnar af klettabrún og notað til þess AR-15 riffil.

Lögregla telur árásina hafa verið handahófskennda og ekki beinst gegn neinum ákveðnum en Couch ku hafa keypt byssuna og fjölda skotfæra skömmu áður en hann lét til skarar skríða.
Couch er nú leitað í víðfemu og þéttvöxnu skóglendi þar sem skotvopnið, skotfæri og bifreið hans fundust. Það er ekki talið útilokað að hann hafi svipt sig lífi.
Yfirvöld hafa notast við þyrlur, dróna og hunda við leitina en íbúar í nágrenninu hafa verið varaðir við því að vera á ferli og ráðlagt að grípa til ráðstafana til að gera heimili sín örugg með því að læsa dyrum, hafa ljós kveikt úti og öryggismyndavélar í gangi.
Þá ættu þeir að tryggja að farsímar séu fullhlaðnir.
Skólahald hefur víða fallið niður vegna leitarinnar en Randall Weddle, borgarstjóri London, segir forgangsmál að tryggja öryggi barnanna.