Liverpool hefur unnið þrjá fyrstu deildarleikina undir hans stjórn sem voru leikir á móti Ipswich Town (2-0), Brentford (2-0) og Manchester United (3-0).
Liðið er því með fullt hús eftir þrjá leiki og hefur enn ekki fengið á sig mark því markatalan er 7-0.
Næst á dagskrá er leikur á móti Nottingham Forest á Anfield á morgun.
Vinni Liverpool leikinn og heldur markinu líka hreinu þá setur Slot nýtt met.
Enginn þjálfari í sögu ensku úrvalsdeildarinnar hefur unnið fjóra fyrstu leiki sína í deildinni án þess að fá á sig mark.
Aðeins tveir aðrir knattspyrnustjórar hafa byrjað eins vel en það voru Jose Mourinho með Chelsea árið 2004 og Sven-Göran Eriksson með Manchester City árið 2007.
Chelsea vann fyrstu fjóra leiki sína undir stjórn Mourinho en sá fjórði vannst 2-1 á móti Southampton. City tapaði 1-0 á móti Arsenal í fjórða leik Eriksson.
Slot var heppinn hvað það varðar að byrjun Liverpool á hans fyrsta tímabili var í auðveldari kantinum og hann er heldur betur að nýta sér það.
Eftir leikinn við Nottingham Forest tekur síðan við heimaleikur á móti Bournemouth og svo í framhaldinu eru útileikir við Wolverhampton Wanderers og Crystal Palace.
Næsti leikur á móti einu af stóru klúbbunum verður á móti Chelsea á Anfield 20. október eða eftir næsta landsleikjahlé.