Frá þessu segir á vef Neytendastofu. Þar kemur fram að í sumar hafi Neytendastofa meðal annars skoðað ástand verðmerkinga hjá verslunum sem staðsettar eru í Ármúla og nærliggjandi götum.
„Farið var í 50 verslanir og kannað hvort söluvörur væru verðmerktar. Í fyrri skoðun voru gerðar athugasemdir við verðmerkingar hjá 13 verslunum.
Við seinni skoðun höfðu 10 verslanir bætt úr verðmerkingum sínum þannig að ekki þótti tilefni til frekari aðgerða hjá þeim.
EG skrifstofuhúsgögn, Innréttingar og tæki og Kölski bættu ekki merkingar sínar og hafa nú verið sektaðar,“ segir á vef Neytendastofu.
Ákveðið var að sekta EG skrifstofuhúsgögn um 100 þúsund krónur, Innréttingar og tæki og Kölska um 50 þúsund krónur. Fyrirtækjunum er gert að greiða sektina í ríkissjóð eigi síðar en þremur mánuðum frá dagsetningu ákvörðunar Neytendastofu.