Þetta segir í fréttatilkynningu frá Ríkislögreglustjóra. Þar segir að að baki hverrar fylgdar sé mikill undirbúningur, til að mynda náið samráð við yfirvöld í móttökuríki til að tryggja öryggi, aðbúnað og faglega móttöku.
„Miðað við þann tímaramma sem almennt er gefinn til undirbúnings er ljóst að ekki verður af flutningi fjölskyldunnar að svo komnu þar sem frá og með næstkomandi laugardegi, þann 21. september, mun fjölskyldan geta óskað eftir efnislegri meðferð umsóknar sinnar um alþjóðlega vernd hér á landi.“
Hætt við á síðustu stundu
Fjölskyldan var á aðfaranótt mánudags flutt af fylgdar- og heimferðadeild Ríkislögreglustjóra til Keflavíkur, þaðan sem átti að fljúga henni til Spánar, þar sem hún hafði fengið vegabréfsáritun við komuna til Evrópu.
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra ákvað svo snemma morguns á mánudag að fyrirskipa frestun brottflutningsins að beiðni Guðmundar Inga Guðbrandssonar, félags- og vinnumarkaðsráðherra.
Vildi ræða málið og Yazan fer ekki fet
Guðmundur Ingi hafði óskað eftir því að brottflutningnum yrði frestað þar til mál Yazans hefði verið rætt á ríkisstjórnarfundi.
Nú er ljóst að frestun brottflutningsins gerir það að verkum að fjölskyldan fær efnislega meðferð umsóknar sinnar um alþjóðlega vernd hér á landi, frekar en á Spáni.