Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við Vísi að rannsókn á andláti stúlkunnar miði vel. Ekkert nýtt sé að frétta af málinu.
Í gær hvatti hann fólk sem hefur haldbærar upplýsingar, sem hafi þýðingu fyrir rannsókn málsins, til að koma með þær til lögreglu. Þar eigi þær heima, en ekki í sögusögnum sem gangi manna á milli á internetinu.
„Það eru engar ábendingar, sem við getum kallað staðreyndir, sem við getum fylgt eftir.“
Ná utan um málið á fyrstu klukkustundunum
Þá segir Grímur að rannsóknin sé í hefðbundnum farvegi mála af þessu tagi.
„Þetta er þannig með svona rannsóknir, við náum utan um þær á fyrstu klukkutímunum og dögunum og þá fara þær í staðlaðan farveg. Það má segja að þessi rannsókn sé komin þangað. Það er verið að vinna eftir þeim upplýsingum sem við höfum um þennan atburð.“
Gefur ekkert upp um efni yfirheyrslna
Sigurður Fannar Þórsson, sem grunaður er um að hafa banað stúlkunni, dóttur sinni, var formlega yfirheyrður í gær í fyrsta sinn frá handtöku á sunnudagskvöld. Þá hringdi hann á lögreglu og tilkynnti að hann hefði ráðið dóttur sinni bana.
Liggur formleg játning fyrir í málinu?
„Ég hef ekkert farið út í það sem kemur fram í yfirheyrslum og það er bara ekki tímabært að fara nokkuð út í það.“