Enski boltinn

„Ekki jafn auð­velt og loka­tölurnar gáfu til kynna“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Arne Slot sáttur að leik loknum.
Arne Slot sáttur að leik loknum. EPA-EFE/TIM KEETON

„Þetta var góð frammistaða, sérstaklega með boltann. Við áttum fjöldann allan af skotum og sköpuðum mörg færi en þetta var ekki jafn auðvelt og lokatölurnar gáfu til kynna,“ sagði Arne Slot, þjálfari Liverpool, eftir sigur liðsins á Bournemouth í dag.

Liverpool lagði Bournemouth með þremur mörkum gegn engu í dag. Slot var því eðlilega sáttur þegar hann ræddi við fjölmiðla eftir leik.

„Þetta voru virkilega góðar afgreiðslur en það er vert að muna hvað gerðist þar á undan. Bournemouth spiluðu mjög aggressíft svo [Ibrahima] Konaté vissi að það væri góð lausn að spila boltanum aftur fyrir vörn þeirra,“ sagði Slot um tvennu Luis Díaz.

„Í seinna markinu átti Trent [Alexander-Arnold] virkilega gott hlaup með boltann og Luis kláraði bæði færin virkilega vel.“

Um Darwin Núñez

„Við vonumst til að bæta mörkum við leik hans því það er það sem við þurfum frá framherjanum okkar, vinnusemin hans var til fyrirmyndar. Við höfum marga góða leikmenn og það er samkeppni um stöður. Svo lengi sem leikmenn halda áfram að spila vel þá er það jákvætt fyrir mig.“

Um Trent

„Það kemur mér ekki á óvart að hann komi að svo mörgum mörkum því hann býr yfir gríðarlegum gæðum. Það sem mér líkar einnig er hvernig hann verst. Ef hann getur sameinað þetta tvennt mun hann gera mig mjög glaðan.“

„Það er eðlilegt að vinna heimaleik gegn Bournemouth en þetta er erfið dagskrá og liðin sem við mætum eru virkilega sterk. Bournemouth gerði okkur erfitt fyrir en við unnum og þurfum nú að halda áfram,“ sagði Slot að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×