Skotmark árásarinnar var Ibrahim Aqil sem er sagður hafa leitt hernaðararm Hezbollah eftir að fyrrverandi leiðtogi þess var ráðinn af dögunum í júlí. Hann var einnig eftirlýstur í Bandaríkjunum fyrir aðkomu sína að árás á bandaríska sendiráðið í Beirút ásamt mannskæðri sprengjuárás í bragga bandarískra landgönguliða í Beirút árið 1983.
Aqil féll í árásinni en hann er sagður hafa verið á fundi með meðlimum hinna svokölluðu Radwan-sveita, eins konar sérsveitir Hezbollah. Sprengjum var varpað á neðanjarðarbyrgi þar sem fundarhöldin fóru fram en byggingin ofan á byrginu hrundi í kjölfarið á háannatíma. Göturnar í kringum bygginguna voru fullar af fólki á leið sinni heim frá vinnu og skóla.
Spennan magnast á landamærum Ísraels og Líbanons þar sem árásir á báða bóga hefur fjölgað undanfarið. Hezbollah hóf að gera loftárásir með eldflaugum og flygildum þann áttunda október í fyrra og Ísraelsmenn hafa svarað með loft- og stórskotaliðsárásum yfir landamærin.
Á dögunum náði spennan nýjum hæðum þegar þúsundir símboða vígamanna Hezbollah sprungu nær samstundis í loft upp. Ísraelsmenn höfðu átt við símboðana áður en þeir bárust vígamönnum Hezbollah með því að koma sprengiefni fyrir í þeim.