Kristall skoraði þrennu þegar Ísland vann Danmörku, 4-2, í undankeppni EM U-21 árs liða fyrr í mánuðinum og hann hélt uppteknum hætti í dag.
Sønderjyske komst yfir á 27. mínútu þegar Kristall lagði upp mark fyrir Lirim Qamili. Yeni Atito N'Gbakoto jafnaði fyrir Vejle á 74. mínútu en þegar sjö mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma skoraði Marc Dal Hende sigurmark Sønderjyske.
Daníel Leó Grétarsson lék allan leikinn í vörn Sønderjyske sem er í 10. sæti deildarinnar með átta stig. Vejle er aftur á móti á botninum án stiga.
Elías Rafn Ólafsson stóð í marki meistara Midtjylland sem gerðu 2-2 jafntefli við Randers á útivelli.
Midtjylland lenti tvisvar sinnum undir í leiknum auk þess sem Dario Osorio fékk rauða spjaldið eftir rúman klukkutíma. En meistararnir gáfust ekki upp og Aral Simsir tryggði þeim jafntefli þegar hann skoraði úr vítaspyrnu í uppbótartíma.
Midtjylland er með þriggja stiga forskot á toppi deildarinnar og hefur ekki enn tapað leik.
Í sænsku úrvalsdeildinni kom Andri Fannar Baldursson inn á sem varamaður þegar Elfsborg og Hammarby gerðu markalaust jafntefli.
Eggert Aron Guðmundsson sat allan tímann á varamannabekk Elfsborg sem er í 6. sæti deildarinnar.