Erlent

Ísraelar ráðast í um­fangs­miklar loft­á­rásir og hvetja í­búa til að flýja

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Reyk leggur frá þorpinu Kfar Rouman í Líbanon eftir loftárás Ísraelshers.
Reyk leggur frá þorpinu Kfar Rouman í Líbanon eftir loftárás Ísraelshers. AP/Hussein Malla

Ísraelsher hefur hvatt íbúa í þorpum í suðurhluta Líbanon, sem kunna að búa nærri byggingum eða svæðum þar sem Hezbollah er með hernaðarinnviði, til að forða sér.

Herinn hóf umfangsmiklar loftárásir á skotmörk í Líbanon í nótt, sökum vísbendinga um að Hezbollah væri að undirbúa árásir á skotmörk í Ísrael. 

Hezbollah-samtökin skutu yfir 100 eldflaugum á skotmörk í norðurhluta Ísrael í gærmorgun og lentu sumar nærri borginni Haifa. Þær aðgerðir komu í kjölfar árása Ísraelsmanna á Beirut á föstudag, þar sem 45 létust, þeirra á meðal nokkrir helstu leiðtogar Hezbollah.

Ráðamenn í Ísrael segja hernaðaraðgerðir munu standa yfir þar til íbúum í norðurhluta landsins er óhætt að snúa heim en talsmenn Hezbollah hafa sagt á móti að þeir muni aldrei eiga afturkvæmt.

Ísraelar hafa ekki útilokað að ráðast inn í Líbanon til að ná fram markmiðum sínum en varnarmálaráðherrann Yoav Gallant greindi frá því í morgun að hann hefði rætt við Lloyd Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, í nótt.

Gallant sagðist hafa veitt kollega sínum upplýsingar um mat Ísraelsmanna á þeirri hættu sem stafaði af Hezbollah og greint honum frá aðgerðum til að draga úr getu samtakanna til að ráðast gegn almenningi í Ísrael.

Þá eru Gallant og Austin sagðir hafa rætt ástandið á svæðinu almennt og Íran og bandamenn Írana.

Bandaríkjamenn segjast ekki hafa verið upplýstir um árásir síðustu viku, þar sem símboðar og talstöðvar sprungu. Ísraelar eru almennt taldir hafa staðið fyrir árásunum en hafa ekki lýst þeim á hendur sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×