„Það er verið að bíða eftir gögnum sem eru til rannsóknar annarsstaðar,“ segir Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn á Austurlandi. Þar sé meðal annars um að ræða lífsýni og rafræn gögn.
Krufningu á líkum hjónanna sé lokið, en lögregla telji ekki tímabært að greina frá niðurstöðum hennar.
„Það er bara einn liður í rannsókn málsins og svo er verið að bíða eftir þessum og öðrum gögnum. Framhaldið verður metið í kjölfar þess. Rannsókninni miðar vel,“ segir Kristján.
Fátt hafi þó breyst frá því lögregla gaf út fréttatilkynningu þann 6. september, þar sem greint var frá því að hinn grunaði hefði verið úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald.
„Rannsóknin er á viðkvæmu stigi og þess vegna er ekki tímabært fyrir lögreglu að segja mikið meira en nákvæmlega þetta.“
Veistu meira um málið? Fréttastofa tekur við ábendingum á netfangið ritstjorn@visir.is. Fullum trúnaði er heitið.