Erlent

Fjórir myrtir og fjöldi særður eftir skot­á­rás í Alabama

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Í þriðja sinn á þessu ári eru fjórir eða fleiri drepnir í einu í Birmingham.
Í þriðja sinn á þessu ári eru fjórir eða fleiri drepnir í einu í Birmingham. Getty

Fjórir eru látnir og átján særðir eftir skotárás sem gerð var í borginni Birmingham í Alabamaríki í Bandaríkjunum um helgina.

 Talið er að margir byssumenn hafi skotið á hóp fólks og flúið svo af vettvangi. Tveir karlmenn og ein kona létu lífið og enginn hefur verið handtekinn. Lögreglan telur að árásin hafi sérstaklega beinst að einum hinna látnu og líklegt að árásarmennirnir hafi verið leigumorðingjar. Fjórir hinna særðu eru á gjörgæslu en hin særðust minna.

Vitni á svæðinu segja að svo virðist sem árásarmennirnir hafi verið með alsjálfvirkar skammbyssur en slíka breytingu má gera á venjulegum skammbyssum með tiltölulega auðveldum hætti. Borgarstjórinn í Birmingham segir að minnst hundrað skothylki hafi fundist á svæðinu og gagnrýnir að slíkar breytingar sé hægt að gera með svo auðveldum hætti.

Skotárásir þar sem fjórir eða fleiri særast eða deyja eru nú orðnar fleiri en 400 í Bandaríkjunum það sem af er þessu ári. Aðeins eru tæpir tveir mánuðir frá síðustu árásinni af því tagi í Birmingham og í þriðja sinn á þessu ári þar sem fjórir eru myrtir í einu í borginni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×