Diljá Mist tekur þátt í pallborðsumræðum á málþingi á vegum Varðbergs, samtaka um vestræna samvinnu, í Háskólanum í Reykjavík nú í hádeginu ásamt formönnum utanríkismálanefnda þjóðþinga Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna. Fundinum er streymt beint á Vísi.
Ræddar verða alþjóðlegau áskoranir, t.d. vegna innrásar Rússa í Úkraínu, sem ríkin standa frammi fyrir, sem og áhrifin af inngöngu Finna og Svía í Atlantshafsbandalagið og samstarf ríkjanna í öryggis- og varnarmálum.

Diljá Mist segir Norðurlöndini og Eystrasaltsríkin nánustu bandalags- og vinaþjóðir Íslendinga og samstarf þeirra væri náið. Þótt almenningur á Íslandi væri mjög vel upplýstur um stöðu mála til að mynda í Úkraínu, væri viss fjarlægð hér frá atburðunum sem ekki væri í hinum ríkjunum.
„Og mér þótti mjög mikilvægt að þeirra raddir myndu heyrast inni í umræðunni á Íslandi,“ segir Diljá Mist sem lét af formennsku í utanríkismálanefnd Alþingis við hrókeringar á formönnum nefnda á Alþingi nú í haust. Mörg þessara ríkja hefðu landamæri að Rússlandi.
„Við finnum það meðal annars hjá vinum okkar á Norðurlöndunum að þeir eru byrjaðir að setja sig í stellingar og gera ráð fyrir að átökin geti breiðst út,“ segir Diljá Mist.
Greina mætti þungar áhyggjur af þessu innan Eystrasaltsríkjanna en einnig innan Norðurlandanna. Ekki hvað síst hjá Svíum sem væru mjög uggandi yfir stöðunni. Þetta væru þjóðir sem ættu langa sögu af blóðugum átökum og yfirráð Rússa og Sovétríkjanna.

Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin hafa verið mjög einörð innan Evrópusambandsins og Atlantshafsbandalagsins varðandi stuðninginn við Úkraínu. Þau þrýsta til að mynda mjög á að ákalli Úkraínu um að fá að nýta vestræn vopn til árása innan landamæra Rússlands verði svarað. Þannig að þau geti skotið á hergagnageymslur, flugvelli og skotpalla sem nýttir væru til eldflaugaárása á óbreytta borgara, skóla og sjúkrahús í borgum og bæjum Úkraínu.
Diljá Mist segir þessar þjóðir þekkja það á eigin skinni, jafnvel í nýlegri sögu sinni, að verja þurfi friðiðinn.
„Friðurinn er ekki sjálfgefinn. Honum verður ekki viðhaldið með því að aðhafast ekkert. Heldur einmitt með því að verja friðinn með kjafti og klóm. Það er það sem ég vonast til að þau leggi inn í umræðuna á þessum fundi í dag,“ segir Diljá Mist Einarsdóttir.