Innlent

Býður sig ekki fram til for­manns og styður Svan­dísi

Eiður Þór Árnason skrifar
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra sækist eftir því að gegna áfram embætti varaformanns VG.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra sækist eftir því að gegna áfram embætti varaformanns VG. Vísir/Bjarni

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra og starfandi formaður Vinstri grænna (VG) ætlar ekki að gefa kost á sér í formannssætið á komandi landsfundi. Í stað þess vill hann sjá Svandísi Svavarsdóttur innviðaráðherra og þingmann VG leiða flokkinn en hún hefur ekki tilkynnt framboð. 

Vinstrihreyfingin - grænt framboð hefur verið án kjörins formanns frá því að Katrín Jakobsdóttir steig til hliðar sem formaður og forsætisráðherra í apríl samhliða framboði sínu til embættis forseta Íslands. Þá tók Guðmundur Ingi við sem starfandi formaður VG en hann gegndi áður stöðu varaformanns. Hann hyggst sækjast eftir að gegna því embætti áfram eftir næsta landsfund. 

Guðmundur Ingi tilkynnir þetta í færslu á Facebook-síðu sinni. Landsfundur Vinstri grænna fer fram þann 4. til 6. október næstkomandi. 

Áfram oddviti í Kraganum

„Ég er ekki að hætta í stjórnmálum, langt því frá. Ég mun áfram bjóða fram krafta mína sem varaformaður hreyfingarinnar og oddviti VG í Kraganum. Ég brenn fyrir umhverfismálum, mannréttindum og félagslegum áherslum og vil áfram vinna þeim baráttumálum brautargengi í íslensku samfélagi,“ segir Guðmundur Ingi í tilkynningu sinni.

Hann segir það hafa verið heiður að leiða flokkinn frá því í vor en hann treysti engum betur til þess verks en Svandísi Svavarsdóttur. Guðmundur Ingi segist hafa greint henni frá þessari afstöðu sinni. 

Vill sjá sterka félagshyggjustjórn

„Ég er þakklátur fyrir þau fjölmörgu tækifæri sem ég hef fengið til að hafa áhrif. Allar friðlýsingarnar sem umhverfisráðherra, lögfesting kolefnishlutleysis Íslands og það að skylda fyrirtæki og almenning til að flokka sorp. Og, í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu að koma á réttlátara og einfaldara örorkulífeyriskerfi sem snertir fólk um land allt og beðið hefur verið eftir í fjöldamörg ár – og ná í gegn fyrstu landsáætluninni í málefnum fatlaðs fólks. Nú hillir auk þess undir fyrstu stefnu Íslands í málefnum innflytjenda.

Fleiri og sterkari raddir þarf til að tala fyrir náttúrunni, réttindum hinsegin fólks, kvenna, fatlaðs fólks og innflytjenda, og berjast fyrir vinstri gildum þar sem við fáum öll raunverulega að vera með í samfélaginu,“ skrifar Guðmundur Ingi. 

Hann kallar eftir því að „sterk félagshyggjustjórn“ sitji í Stjórnarráðinu á næsta kjörtímabili og vilji eiga þátt í því að gera það að veruleika.  

Fréttin hefur verið uppfærð. 


Tengdar fréttir

Segir afsögn sína heillaspor fyrir VG

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir afsögn sína sem formanns flokksins gefa Vinstri grænum tækifæri og svigrúm til breytinga og að brottför sín úr flokknum verði heillaspor.

Katrín gefur kost á sér

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur tilkynnt að hún gefi kost á sér til embættis forseta Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×