Fótbolti

Nasistaborði í Magdeburg til rann­sóknar

Valur Páll Eiríksson skrifar
Borðinn umræddi þar sem hvatt er til baráttu gegn útlendingum. Merki Magdeburgar í líki þess Stasi-lögreglunnar er fyrir miðju.
Borðinn umræddi þar sem hvatt er til baráttu gegn útlendingum. Merki Magdeburgar í líki þess Stasi-lögreglunnar er fyrir miðju. Mynd/Twitter

Þýska knattspyrnusambandið er með til athugunar borða sem stuðningsmenn Magdeburgar voru með til sýnis á leik liðsins við Karlsruhe í þýsku 2. deildinni um helgina. Borðinn er sagður hafa verið af nasískum toga.

Liðin tvö gerðu 2-2 jafntefli á heimavelli Magdeburgar í Þýskalandi. Í upphafi leiksins var stór borði til sýnis í heimahluta stúkunnar. Náði borðinn raunar yfir alla stúkuna þar sem blóðheitustu stuðningsmenn félagsins koma saman.

Á honum sagði: „Verjið heimalandið frá erlendum fánum – haldið áfram og sýnið enga miskunn (þ. Schützt die Heimat vor fremden Fahnen - schreitet voran und habt kein Erbarmen).“

Á miðju borðans var stórt marki Magdeburgar sem hafði verið hannað í líki Stasi, alríkislögreglunnar í Austur-Þýskalandi fyrir fall Berlínarmúrsins.

Textinn er tilvitnun í texta lags eftir hljómsveitina Rien ne va plus sem kemur frá Magdeburg. Flest lög hljómsveitarinnar eru af svipuðum toga og segir í fréttum þýskra miðla um málið að tónlistarútgefandi í umsjón nýnasistahreyfingar sjái um útgáfu og útbreiðslu tónlistar sveitarinnar.

Málið hefur verið tilkynnt til þýska knattspyrnusambandsins. Fulltrúar sambandsins munu ekki tjá sig um málið fyrr en það hefur verið tekið fyrir. Málið er á rannsóknarstigi.

Magdeburg sendi frá sér yfirlýsingu um málið þar sem sagði: „Við eigum stöðugt samtal við virka aðdáendur liðsins. Við munum ræða þetta mál opinskátt og með miklum forgangi á næstunni. Eitt er víst: 1. FC Magdeburg stendur skilyrðislaust fyrir umburðarlyndi og fjölbreytileika. Þessi gildi skipta miklu máli. okkur og móta daglegar athafnir okkar.“

Tveir Íslendingar leika fyrir handboltalið Magdeburgar, þeir Gísli Þorgeir Kristjánsson og Ómar Ingi Magnússon.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×