Handbolti

HR og HSÍ taka höndum saman: „Engin meðal­­­mennska hér, það er tekið á því“

Aron Guðmundsson skrifar
Prófanirnar sem landsliðskonur Íslands í handbolta þreyttu í fyrsta skipti í Háskólanum í Reykjavík í dag eru sam­bæri­legar þeim sem sjást hjá at­vinnu­manna- og lands­liðum er­lendis sem við viljum bera okkur saman við.
Prófanirnar sem landsliðskonur Íslands í handbolta þreyttu í fyrsta skipti í Háskólanum í Reykjavík í dag eru sam­bæri­legar þeim sem sjást hjá at­vinnu­manna- og lands­liðum er­lendis sem við viljum bera okkur saman við. Vísir/Sigurjón

Mikil­væg skref voru tekin í starfi ís­lenska kvenna­lands­liðsins í hand­bolta í Há­skólanum í Reykja­vík í dag þegar að leik­menn liðsins gengust undir ítar­leg próf sem skila niður­stöðum sem gera vinnu leik­manna og þjálfara mark­vissari og skipu­lagðari.

Gerðar voru ýmsar mælingar á þáttum leik­manna. Til dæmis þoli, styrk, hraða, hreyfan­leika og sál­fræði­legri hæfni og er um að ræða tíma­mót í um­gjörð og fag­menns­kunni í kringum liðið sem horft er til að muni gagnast liðinu og leik­mönnum þess til langs tíma litið.

Allt er þetta nú geran­legt í fyrsta skipti sökum nýs búnaðar sem Há­skólinn í Reykja­vík hefur tekið í notkun en sam­bæri­legar mælingar þekkjast hjá at­vinnu­manna- og lands­liðum sem við viljum bera okkur saman við úti í heimi. Verk­efnið er leitt á­fram af í­þrótta­fræði­deild Há­skólans í Reykja­vík en í þéttu sam­starfi og undir for­ystu lands­liðs­þjálfarans Arnars Péturs­sonar.

Verða markvissari og skipulagðari

Arnar Pétursson, landsliðsþjálfari íslenska kvennalandsliðsins í handboltaVísir/Sigurjón

„Þessi skref hérna í dag sem við tökum með HR eru mjög mikil­væg vegna þess að við vitum að þessi lið sem við erum að bera okkur saman við. Liðin sem við viljum vera að nálgast. Eru ein­mitt að vinna þessa vinnu. Það að fá ein­hverjar niður­stöður, sem við vitum að munu gera vinnu okkar mark­vissari í fram­haldinu, gerir bara ó­geðs­lega mikið fyrir okkur. Við verðum mark­vissari. Verðum skipu­lagðari. Ættum að vera betur undir það búin að hjálpa þessum stelpum að taka þau skref sem eru nauð­syn­leg. Þetta skiptir okkur miklu máli. Ég er á­nægður með frum­kvæði Há­skólans í Reykja­vík í þessu máli. Að bjóða okkur upp á þetta. Ég er þeim virki­lega þakk­látur.“

Unnið er hratt og örugg­lega úr gögnunum og munu niður­stöður berast þjálfara­t­eymi liðsins og er horft til þess að þær muni nýtast ís­lenska lands­liðinu og leik­mönnum þess til langs tíma litið.

Við stefnum á að vera hérna aftur eftir ein­hvern á­kveðinn tíma. Þessar mælingar í dag er á­kveðin upp­hafs­staða. Úr þeim fáum við á­kveðnar niður­stöður sem við getum unnið með í fram­haldinu. Til langs tíma mun þetta skila okkur alveg g miklu. En til skamms tíma, fram að EM í lok árs, jú þá mun þetta nýtast okkur en er kannski ekki al­gjört lykil­at­riði.“

Vonandi vísirinn af því sem koma skal

Sveinn Þor­geirs­son er stjórnandi RU Sports Lab hjá HR og hefur yfir­um­sjón með verk­efninu sem gagnast ekki há­skólanum síður en lands­liðinu en meistara­nemar taka virkan þátt í ferlinu.

Sveinn Þorgeirsson, stjórnandi RU Sports LabVísir/Sigurjón

„Við hér í Há­skólanum í Reykja­vík styðjum við þetta ferli. Það þjónar okkar mark­miði líka. Við komum inn með okkar meistara­nem­endur og tvinnum þetta allt saman. Við fáum því helling út úr þessu. Bæði í tengslum við akademísk, vísinda- og í­þrótta­leg gildi. Þessar prófanir sem við erum að gera hér í dag eru eigin­lega alveg sam­bæri­legar því sem við erum að sjá hjá at­vinnu­manna- og lands­liðum er­lendis. Það er frá­bært tæki­færi fyrir okkur að geta veitt nem­endum okkar reynslu í þessu og um leið veitt HSÍ þjónustu á þennan hátt.“

Verk­efnið nú form­lega hafið og vonandi bara í fyrsta skipti sem HR og HSÍ taka höndum saman með þessum hætti.

„Vonandi er þetta bara vísirinn af því sem koma skal. Að þetta verði hluti af um­gjörðinni í kringum lands­liðin. Það verður auð­vitað gert í sam­tali við HSÍ. Þetta er í fyrsta skipti sem við gerum þetta en ég er viss um að það verði mikill þungi lagður í að nota gögnin. Að þau fari beint í notkun hjá hverjum og einum ein­stak­lingi. Sumir leik­menn koma út úr þessu með þær upp­lýsingar að þær séu bara í góðum málum. Eru sterkar, í góðu jafn­vægi og þar fram eftir götunum. Svo náum við örugg­lega að koma augu á eitt­hvað sem við þurfum að fylgja eftir fyrir leik­manninn. Eitt­hvað til að bæta úr og hjálpa þeim að haldast heilum. Af því að við viljum að okkar lands­liðs­fólk sé heilt heilsu og geti tekið þátt af fullum krafti á stór­mótum.“

„Engin meðalmennska hér“

„Þegar að leik­menn klára prófin og labba héðan út þá verða gögnin komin inn. Við getum því strax tekið niður­stöðurnar til skoðunar næstu daga og vikur. Þessar tölur eru nú svo­lítið bara eins og græn­meti. Þær eru bestar fyrst og ferskar. Það liggur því mikið á að vinna úr þeim hratt og vel. Við höfum fag­fólk hér til að hjálpa til við það.“

Af­reks­í­þrótta­fólk okkar Ís­lendinga býr yfir miklu keppnis­skapi og það var ekki lagt til hliðar í prófunum dagsins.

Verðurðu var við að þær séu í ein­hverjum metingi inn­byrðis og keppni varðandi þessi próf sem þær eru að þreyta?

„Já. Það er alveg aug­ljóst,“ svarar Sveinn. „Það er engin meðal­mennska hér. Hér er bara verið að taka á því.“

„Miklu meiri fræði en ég bjóst við“

Og leik­menn lands­liðsins voru á­nægðar með daginn.

Þórey Björk Stefánsdóttir, landsliðskona í handboltaVísir/Sigurjón

„Þetta hefur allt svo mikið að segja,“ segir Þór­ey Rósa Stefáns­dóttir ein af reynslu­boltum liðsins. „Það er búið að tala um líkam­lega þáttinn í mörg ár. Það er verið að taka hann föstum tökum núna sem og aðra þætti. Öll fag­mennska. Öll um­gjörð skiptir miklu máli í þessu. Hún er á upp­leið.

Það er alltaf að færast meiri og meiri al­vara í í­þróttir vil ég meina. Það er orðin miklu meiri vinna að vera í­þrótta­maður núna heldur en var fyrir ein­hverjum tíu til fimm­tán árum. Fræðin eru meiri og fyrir vikið verður í­þrótta­fólkið betra. Þetta er bara búið að vera mjög fræðandi og skemmti­legt ferli í dag. Í rauninni miklu meiri fræði á bak við þetta en ég bjóst við fyrir fram.“

Thea Imani Sturlu­dóttir tekur í sama streng og liðs­fé­lagi sinn í lands­liðinu.

Thea Imani Sturludóttir, landsliðskona í handboltaVísir/Sigurjón

„Það er búið að vera ó­geðs­lega skemmti­legt að taka þátt í þessu. Þetta eru svona há­marks mælingar sem verður gott að fá niður­stöður úr til þess að sjá hvar maður getur bætt sig. Við erum bara hrika­lega heppnar að fá að koma hingað og taka þátt í þessu.“

Það verður líka bara gaman að sjá niður­stöðurnar, upp á fyrir­byggjandi hluti varðandi meiðsli og annað að gera. Sjá hvað maður þarf að bæta hér og þar. Svo þegar að við mætum hingað aftur, þreytum þessi próf aftur, þá getum við fengið góða mynd af því hvar við stöndum. Hvort að við höfum náð að bæta okkur milli skipta. Það verður bara mjög gaman að sjá.“

Spennandi mánuðir fram undan

Ís­lenska lands­liðið heldur af landi brott á morgun til Tékk­lands á æfinga­mót þar sem liðið mun leika þrjá leiki. Því næst taka við tveir leikir við pólska lands­liðið hér heima í októ­ber og þá erum við komin í­skyggi­lega ná­lægt upp­hafs­degi Evrópu­mótsins sem stelpurnar okkar taka þátt í undir lok árs.

Þar verða þær í krefjandi riðli með Hollandi, Þýska­landi og Úkraínu en riðill liðsins verður spilaður í Inns­bruck í Austur­ríki. Mótið hefst þann 28.nóvember og lýkur 15.desember.

Elín Klara, ein af landsliðskonum Íslands í landsleik.Vísir/Anton Brink

„Það er hugur í öllum hópnum,“ segir Arnar. „Fram­haldið er náttúru­lega bara spennandi. Við erum að fara í þessa þrjá leiki um helgina sem skipta okkur miklu máli. Þar munum við fá ein­hver svör og munum sömu­leiðis leita svara við á­kveðnum spurningum sem við höfum.

Í fram­haldi af því tökum við svo á móti pólska lands­liðinu hérna heima í tveimur leikjum í októ­ber sem er frá­bært. Upp­setningin á undir­búningi okkar fyrir Evrópu­mótið er eins góð og hún getur orðið. Við þurfum bara að geta unnið eins vel með þann tíma sem við höfum eins og við getum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×