Handbolti

Sporting rúllaði yfir Veszprém

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Orri Freyr var öflugur í kvöld.
Orri Freyr var öflugur í kvöld. Sporting

Orri Freyr Þorkelsson og félagar í Sporting áttu ekki í vandræðum með Veszprém, lið Bjarka Más Elíssonar, þegar þau mættust í Meistaradeild Evrópu í handbolta í kvöld. 

Þá vann Íslendingalið Gummersbach góðan sigur á meðan Ribe-Esbjerg er enn án sigurs í Danmörku.

Sporting hefur komið verulega á óvart í upphafi leiktíðar og hafði fyrir leik kvöldsins unnið báða sína leiki í Meistaradeildinni. Sama var að segja um gestina en leikur kvöldsins stóðst ekki væntingar þar sem hann var í raun aðeins spennandi fyrsta stundarfjórðunginn eða svo. Eftir það stigu heimamenn á bensíngjöfina og voru sex mörkum yfir í hálfleik, 23-17. 

Í síðari hálfleik jók Sporting forystuna en gestirnir skoruðu fjögur af síðustu fimm mörkum leiksins og tókst að sjá til þess að munurinn var „aðeins“ níu mörk þegar flautað var til leiksloka, staðan þá 39-30.

Orri Freyr var frábær í liði Sporting og skoraði sex mörk á meðan Bjarki Már skoraði tvö í liði gestanna. Sporting er því áfram á toppi A-riðils með fullt hús stiga en Veszprém er með fjögur stig í 3. sæti.

Í efstu deild Þýskalands unnu lærisveinar Guðjóns Vals Sigurðssonar í Gummersbach sjö marka útisigur á Stuttgart, lokatölur 28-35. Elliði Snær Viðarsson var frábær í liði gestanna og skoraði sex mörk ásamt því að gefa eina stoðsendingu.

Gummersbach er nú með fjögur stig eftir jafn marga leiki.

Í efstu deild Danmerkur tapaði Íslendingalið Ribe-Esbjerg fyrir Nordsjælland með þriggja marka mun, lokatölur 32-35. Ágúst Elí Björgvinsson varði 8 skot í marki Ribe-Esbjerg á meðan Elvar Ásgeirsson skoraði eitt mark.

Ribe-Esbjerg er áfram á botni deildarinnar án stiga.


Tengdar fréttir

Sig­valdi Björn magnaður í fyrsta sigri Kol­stad

Kolstad er komið á blað í Meistaradeild Evrópu karla í handbolta og það er að mestu ótrúlegum leik Sigvalda Björns Guðjónssonar að þakka. Þá gerðu Álaborg og Magdeburg jafntefli þar sem íslenska tvíeykið fór mikið í liði gestanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×