Í fréttatilkynningu frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir að fjórir hafi verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna málsins í síðustu viku, en þremur þeirra síðan sleppt úr haldi. Fjórði maðurinn hafi hins vegar verið úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald til næstkomandi föstudags, 4. október.
Hinir tveir, sem einnig sitji í gæsluvarðhaldi, hafi verið handteknir á Austfjörðum fyrir helgina og í kjölfarið úrskurðaðir í gæsluvarðhald til miðvikudagsins 2. október.
Í frétt Austurfréttar um málið segir að mennirnir hafi verið handteknir þegar þeir voru á leið í gegnum innritunarröð Norrænu síðasta miðvikudag. Haft er eftir Heimi Ríkharðssyni, aðstoðaryfirlögregluþjóni hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, að þeir hafi verið með hluta þýfisins í fórum sínum.
Í tilkynningu segir að rannsókn málsins sé mjög umfangsmikil, en miði ágætlega. Lagt hafi verið hald á lítinn hluta þess sem stolið var.